Í stað þess að reikna búsetukostnað út frá íbúðaverði auk vaxtakostnaðar og afskrifta er hann nú áætlaður út frá leiguverði á sambærilegum íbúðum á sama svæði. Miklar hækkanir hafa verið á íbúðaverði sem koma skýrar fram í gömlu mælingunni og hafa þannig meiri áhrif á verðbólgumælinguna.
Verðbólga mælst 6,1 prósent en ekki 5,8
Fyrst var notast við nýju aðferðina í júní þegar mæld verðbólga minnkaði úr 6,2% í 5,8%. Á sama tíma hækkaði húsnæðisliður mælingarinnar um 0,8% milli mánaða en vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, sem Hagstofan studdist við áður, um 1,44%.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Miðað við útreikninga bankans hefðu um 0,5 prósentustig bæst við hækkun vísitölu markaðsverðs íbúðarhúsnæðis í gömlu aðferðinni, vegna þátta á borð við vexti og afskriftir. Samanlagt hefði reiknuð leiga því mögulega hækkað um 1,94% með gömlu aðferðinni, en ekki 0,8% eins og raunin varð með þeirri nýju. Verðbólga í júní hefði miðað við það mælst 6,1% en ekki 5,8%.
Í júlí hækkaði mæld verðbólga úr 5,8% í 6,3% en liðurinn reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,46% á milli mánaða með nýju aðferðinni.
Að sögn Hagfræðideildar Landsbankans hækkaði vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis á sama tíma um 2,05% og með vaxtalið hefði reiknuð húsaleiga hækkað um 2,55% með gömlu aðferðinni. Verðbólga hefði þannig hækkað úr 6,1% í 6,9% í júlí, í stað þess að mælast 6,3%.
Mæld verðbólga geti lækkað þegar olíu- og bensíngjöld verða felld niður
„Reiknaða húsaleigu má túlka sem leiguverðið sem húsnæðiseigandi myndi borga fyrir íbúðina sína,“ segir í Hagsjá Landsbankans. Gamla aðferð Hagstofunnar hafi byggt á markaðsverði íbúðarhúsnæðis sem var fengið út frá nýþinglýstum kaupsamningum, ásamt vaxtakostnaði, afskriftum og fleira.
Fram kemur í Hagsjánni að með aðgengi að betri gögnum geti Hagstofan nú í staðinn mælt markaðsverð leiguhúsnæðis og borið saman við sambærilegar eignaríbúðir.
Hagstofan er sögð telja nýju aðferðina ná betur yfir það sem hún eigi að mæla og að mælingin komi almennt til með að sveiflast minna á milli mánaða.
Hagfræðideild Landsbankans áréttar að aðeins tvær verðbólgumælingar hafi birst með þessari nýju aðferð og því erfitt að segja til um hver langtímaþróunin verði. Telur deildin líkt og Hagstofan líklegt að mælingar verði stöðugri yfir tíma.
Stjórnvöld hyggjast taka upp kílómetragjald fyrir öll ökutæki um næstu áramót og í staðinn fella niður olíu- og bensíngjöld. Talið er að sú breyting komi til með að lækka verð á bensíni og dísilolíu og jafnframt hafa áhrif á verðbólgumælingar ef nýja gjaldið verður ekki tekið inn í verðmælingar í staðinn.