Harris, varaforseti Bandaríkjanna, og Walz, ríkisstjórni Minnesota, hafa verið harðlega gagnrýnd af Repúblikönum fyrir að veita ekki viðtöl en umrætt viðtal verður sýnt á CNN á fimmtudag.
„[Harris] er að beita þeirri kjallarataktík að hlaupa undan blaðamönnum í staðinn fyrir að standa frammi fyrir þeim og svara erfiðum spurningum um feril sinn og leyfa bandarísku þjóðinni að kynnast sér,“ sagði J.D. Vance, varaforsetaefni Repúblikanaflokksins, á dögunum.
Sagði hann skammarlegt að Harris hefði ekki svarað einni einustu alvöru spurningu frá blaðamanni.
Bæði Vance og Donald Trump hafa veitt fjölda viðtala.

Samkvæmt New York Times, sem tekur saman allar skoðanakannanir á landsvísu, hefur Harris aukið forskot sitt á Trump um eitt prósent en hún mælist nú með 49 prósent fylgi og hann með 46 prósent.
Frambjóðendurnir eru hins vegar hnífjafnir í barátturíkjunum Pennsylvaníu og Arizona. Og á meðan Harris virðist njóta tveggja prósentu forskots í Michigan og Wisconsin mælist Trump með 50 prósent fylgi í Georgíu en Harris með 46 prósent.
Spennandi staða í barátturíkjunum
Farið var yfir stöðu mála í þættinum Baráttan um Bandaríkin á föstudag.
Þar kom meðal annars fram að ef úrslit í öðrum ríkjum falla eins og menn hafa spáð þarf Harris að tryggja sér 44 kjörmenn í barátturíkjunum sex en Trump aðeins 35. Harris þarf þannig að sigra í að minnsta kosti þremur ríkjanna en það nægir Trump að taka Pennsylvaníu og Georgíu.

Fjöldi kjörmanna stendur óbreyttur í 528 og þurfa forsetaefnin að tryggja sér 270 kjörmenn til að hafa sigur og hljóta útnefninguna. Úthlutun kjörmanna hefur hins vegar breyst aðeins eftir að nýtt manntal var tekið árið 2020 og verða breytingarnar að teljast Trump í hag.

Baráttan um Bandaríkin verður sýndur á Vísi með reglulegu millibili fram að kosningum 5. nóvember.