Fótbolti

Alex Morgan ó­frísk og að hætta í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Morgan hefur ákveðið að segja þetta gott í fótboltanum og á bara eftir að spila einn kveðjuleik um komandi helgi.
Alex Morgan hefur ákveðið að segja þetta gott í fótboltanum og á bara eftir að spila einn kveðjuleik um komandi helgi. Getty/Brad Smith

Bandaríska fótboltastjarnan Alex Morgan hefur ákveðið að setja skóna upp á hillu en þetta tilkynnti hún í myndbandi á samfélagsmiðlum sínum.

Morgan sagði einnig frá því að hún sé ófrísk af sínu öðru barni. Morgan eignaðist dótturina April í maí 2020 en kom þá til baka inn á fótboltavöllinn. Nú eiga hún og eiginmaðurinn von á öðru barni.

Morgan ætlar samt að spila einn leik í viðbót með San Diego Wave en sá leikur verður á móti North Carolina Courage á sunnudaginn.

„Ég er svo fullviss um þessa ákvörðun og ég er svo ánægð með að geta loksins sagt ykkur frá þessu,“ sagði Alex Morgan.

„Þetta hefur verið lengi á leiðinni. Þessi ákvörðun var vissulega ekki auðveld en í byrjun ársins þá fann ég það í mínu hjarta og í minni sál að þetta yrði síðasta tímabilið mitt í fótboltanum,“ sagði Morgan.

Morgan er 35 ára gömul og varð sínum tíma tvisvar heimsmeistari og einu sinni Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu. Hún er fimmta markahæsta landsliðskona Bandaríkjanna í sögunni með 123 mörk í 224 leikjum.

Morgan var þó ekki valinn í hópinn hjá Emmu Hayes fyrir Ólympíuleikana í París í sumar.

Morgan lék sinn fyrsta landslið árið 2010 og varð fljótlega byrjunarliðskona í liðinu. Hún var ein stærsta stjarna liðsins í langan tíma og leiðtogi liðsins þegar þær bandarísku urðu síðast heimsmeistarar árið 2019. Morgan skoraði þá sex mörk í keppninni.

„Ég ólst upp í þessu liði og þetta var svo miklu meira en bara fótbolti. Það var svo ótrúlega mikill heiður fyrir mig að fá að spila í landsliðinu í fimmtán ár. Ég lærði svo mikið um mig sjálfa á þessum tíma og þar eiga liðsfélagarnir mikinn heiður skilinn. Ég er svo stolt af því hvert þetta landslið okkar er að stefna og ég verð aðdáandi bandaríska kvennalandsliðsins um ókomna tíð,“ sagði Morgan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×