Erlent

Sýrlendingar reiðir yfir á­rásum Ísraela

Samúel Karl Ólason skrifar
SANA, ríkismiðill Sýrlands, segir árásirnar meðal annars hafa verið gerðar úr lofthelgi Líbanon. Ísraelar hafi skotið eldflaugum þaðan.
SANA, ríkismiðill Sýrlands, segir árásirnar meðal annars hafa verið gerðar úr lofthelgi Líbanon. Ísraelar hafi skotið eldflaugum þaðan. EPA/ABIR SULTAN

Ísraelar gerðu í gærkvöldi umfangsmiklar árásir á fjölda skotmarka í Sýrlandi. Minnst fjórtán eru sagðir liggja í valnum en árásirnar eru sagðar hafa beinst að mörgum hernaðarlegum skotmörkum í landinu. Ráðamenn í Sýrlandi segja þó að óbreyttir borgarar hafi fallið í árásunum.

Utanríkisráðuneyti Sýrlands hefur fordæmt árásirnar og ríkismiðill landsins segir 43 særða eftir árásirnar.

Ísraelar hafa neitað að tjá sig um árásirnar, eins og þeir gera alltaf varðandi loftárásir þeirra í Sýrlandi. Ísraelski herinn hefur á undanförnum árum ítrekað gert loftárásir í Sýrlandi en þeir beinast iðulega að írönskum hermönnum þar í landi og vopnasendingum frá Íran til hópa eins og Hezbolla í Líbanon.

Á undanförnum mánuðum hefur þessum árásum fjölgað og hafa Ísraelar meðal annars fellt íranskan herforingja úr byltingarverði Írans í árás á ræðismannsskrifstofu ríkisins í Damaskus.

Sjá einnig: Íranar hóta hefndum gegn Ísrael

Margar þessara árása hafa verið gerðar ærri Masyaf en Íranar og vígahópar sem þeir styðja eru taldir vera umsvifamiklir í héraðinu. Talsmaður utanríkisráðuneytis Írans þvertók í morgun fyrir að Íranar hefðu fallið í árásum Ísraela.

Syrian Observatory for Humman Rights, samtök sem vakta átökin í Sýrlandi, segja að minnsta kosti 25 hafi fallið í árásunum. Þar af séu fimm óbreyttir borgarar, fjórir hermenn, starfsmenn leyniþjónusta og meðlimir vígahópa sem studdir eru af Íran.

Heimildarmenn Reuters segja að Ísraelar hafi meðal annars gert árás á rannsóknarstöð sýrlenska hersins nærri Masyaf, þar sem Íranar hafa framleitt eldflaugar, samkvæmt yfirvöldum í Ísrael. Sameinuðu þjóðirnar og aðrir segja einnig að efnavopn, eins og saríngas, hafi verið framleidd í rannsóknarstöðinni.

Talið er að þar hafi teymi íranskra sérfræðinga haldið til og að þeir hafi aðstoðað við vopnaframleiðsluna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×