„ÞAÐ VERÐA ENGAR ÞRIÐJU KAPPRÆÐUR,“ básúnaði Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social í dag. Hann atti kappi við Joe Biden í örlagaríkum kappræðum fyrr í sumar.
Þref hefur staðið yfir milli framboðanna tveggja um frekari kappræður á öðrum sjónvarpsstöðvum og Harris sjálf hefur kallað eftir því. Eftir að Trump blés fleiri kappræður út af borðinu sagði Harris á fundi með stuðningsmönnum sínum að þau skulduðu kjósendum að leiða saman hesta sína aftur í sjónvarpssal.
Trump hélt því enn fram í færslu sinni í dag að skoðanakannanir sýndu að hann hefði unnið kappræðurnar örugglega. Þær skoðanakannanir sem hafa verið birtar benda þó flestar til þess að kjósendum hafi þótt Harris standa sig betur.
Jafnvel bakhjarlar og ráðgjafar Trump sem Reuters-fréttastofan ræddi við eftir kappræðurnar töldu að Harris hefði staðið uppi sem sigurvegari vegna þess að Trump hefði farið um víðan völl í svörum sínum.