Innlent

Verður Þórs­mörk þjóð­garður?

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Göngubrú í Þórsmörk en nú er verið að kanna fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður í Þórsmörk.
Göngubrú í Þórsmörk en nú er verið að kanna fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður í Þórsmörk. Aðsend

Starfshópur vinnur nú að því að kann fýsileika þess að stofnaður verði þjóðgarður í Þórsmörk. Hlutverk hópsins er að meta kosti og galla þess að gera svæðið að þjóðgarði með tilliti til áhrifa á samfélag, þróun ferðaþjónustu á svæðinu, umhverfi og efnahag.

Í kjölfar erindis Rangárþings eystra til umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis, skipaði ráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna kosti og galla að stofnaður verði þjóðgarður í Þórsmörk. Haldnir hafa verið fjölmargir fundir með mismunandi hagaðilum vegna hugmyndarinnar, auk þess sem opnir íbúafundir hafa verið haldnir. Áætlað er að starfshópurinn skili tillögum til umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra eigi síðar en 15. nóvember næstkomandi.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra er formaður starfshópsins.

„Það er náttúrulega ógrynni af hagaðilum, sem hafa hag og bera hag til Þórsmerkur. Við erum bara í því ferli núna og safna upplýsingum, sitt sýnis hverjum og við í hópnum göngum bara óhlutbundin inn í þessa vinnu og engin hefur markað sér neina skoðun og þetta er bara virkilega spennandi og skemmtilegt verkefni, sem vonandi á eftir að skila okkur því að við höfum gott yfirlit yfir kosti og galla þess að Þórsmörk yrði þjóðgarður,” segir Anton Kári.

Þórsmörk er mjög vinsæll ferðamannastaður og mikið um rútur, sem fara þangað með ferðamenn.Aðsend

Anton Kári segir að það sé alveg óvíst á þessum tímapunkti hvort hugmyndin um stofnun þjóðgarðs í Þórsmörk verði að veruleika eða ekki um leið og hann leggur áherslu á að skoðun íbúa og annarra hagaðila í Rangárþingi eystra vegi þungt og hann hvetur alla að taka þátt í þessari vinnu með hag sveitarfélagsins og íbúa þess að leiðarljósi.

„Það er upplegg nefndarinnar að kanna fýsileika þess hvort að Þórsmörk sé betur borgið innan þjóðgarðs eða ekki,” segir Anton Kári.

Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra er formaður starfshópsins um hvort það eigi að stofna þjóðgarð í Þórsmörk eða ekki.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×