Erlent

Selenskí varar við „kjarn­orku hörmung“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
World Leaders Speak At The 79th Session Of The United Nations General Assembly In New York
Getty/Spencer Platt

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kom fram fyrir þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag og sagði Rússland vera að skipuleggja frekari árásir gegn kjarnorkuverum Úkraínu og varaði viðstadda við „kjarnorku hörmung“. 

Fréttastofa BBC greinir frá. Selenskí sagðist hafa upplýsingar undir höndum sem sönnuðu að stjórnvöld í Rússlandi notuðust við gervitungl frá öðrum þjóðum til að njósna og safna upplýsingum um kjarnorkuinnviði í Úkraínu. 

„Geislavirkni virðir ekki landamæri og fjöldi þjóða gætu orðið fyrir áhrifum ef ráðist er á kjarnorkuver,“ sagði hann. Rússland hefur ítrekað ráðist á innviði sem sjá Úkraínu fyrir rafmagni og annarri orku síðan að innrásin hófst árið 2022.

Hann biðlaði til Sameinuðu þjóðanna að þrýsta á Rússa að stöðva framgöngu sína í Úkraínu og sagði öryggi í kjarnorkumálum skipta öllu máli. 

Varað hefur verið við versnandi öryggisaðstæðum við Zaporizhzhia kjarnorkuverið en verið er eins og er undir stjórn Rússa. Eldur kom upp í verinu í ágúst. 

Kjarnorkuverið hefur orðið fyrir stanslausum árásum yfir gang stríðsins og hafa bæði Rússar og Úkraínumenn sakað hvorn annan um að bera ábyrgð á árásunum. „Orka má ekki vera notuð sem vopn,“ sagði Selenskí.

Selenskí hyggst funda með Joe Biden Bandaríkjaforseta og Kamölu Harris, frambjóðenda Demókrataflokksins til forseta á meðan á dvöl hans í Bandaríkjunum stendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×