Innlent

Síðasta far­þega­flug Air Atlanta á Boeing 747-júmbóþotunni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Síðasta Boeing 747-farþegaþota Air Atlanta á flugvellinum í Jedda í Sádí-Arabíu í sumar. Pílagrímar á heimleið til Indónesíu ganga um borð.
Síðasta Boeing 747-farþegaþota Air Atlanta á flugvellinum í Jedda í Sádí-Arabíu í sumar. Pílagrímar á heimleið til Indónesíu ganga um borð. Egill Aðalsteinsson

Flugfélagið Air Atlanta er að kveðja Boeing 747-breiðþotuna sem farþegaflugvél eftir 31 ár í rekstri. Síðasta farþegaflug Atlanta á júmbó-þotunni verður sérstakt kveðjuflug til Norður-Afríku um næstu helgi með starfsmenn félagsins.

Þotan sem lýkur ferlinum flaug yfir höfuðstöðvar Atlanta í Kópavogi, sem og yfir Reykjavíkurflugvöll, um tvöleytið í gær áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli eftir nærri átta stunda beint flug frá Jedda í Sádí-Arabíu. Hún flaug yfir Reykjavíkursvæðið í þrjúþúsund feta hæð en vegna stærðar hennar hafa eflaust margir sem sáu hana talið hana fljúga mun lægra yfir borginni.

Boeing 747-farþegaþotan yfir Reykjavík í gær.Egill Aðalsteinsson

Þessi tiltekna þota er merkt Saudia-flugfélaginu, sem Atlanta flýgur fyrir, og sinnti hún meðal annars pílagrímaflugi í sumar. Hún er skrásett hjá systurfélaginu Air Atlanta Europe á Möltu og er með skráningarnúmerið 9H-AZA.

Hún var upphaflega smíðuð fyrir Air France og afhent í marsmánuði árið 2004. Árið 2016 var hún tekin í þjónustu Air Atlanta Icelandic sem TF-AAL.

Atlanta júmbóþotunni ekið frá pílagrímaflugstöðinni í Jedda í sumar á leið í flugtak með 450 farþega um borð.Egill Aðalsteinsson

Stöðvar 2-menn, við kvikmyndatökur vegna þáttaraðarinnar Flugþjóðin, fylgdust með því á flugvellinum í Jedda í júlímánuði þegar pílagrímar á heimleið til Indónesíu gengu um borð í flugvélina. Guðlaugur Ingi Sigurðsson flugstjóri og áhöfn hans voru þá að leggja upp í níu stunda flug með 449 pílagríma.

Síðasta farþegaflug hennar verður fjögurra daga ferð með starfsmenn Air Atlanta til Marokkó. Flogið verður frá Keflavík næstkomandi fimmtudag og komið til baka á sunnudag, samkvæmt upplýsingum frá félaginu. Mánudaginn 7. október verður henni svo flogið til Cotswold-flugvallar norðaustan Bristol þar sem hennar bíður niðurrif í endurvinnslustöð eftir tuttugu ára þjónustu.

Atlanta-flugfélagið er komið með fjórar nýrri og hagkvæmari tveggja hreyfla Boeing 777-farþegaþotur, sem leysa 747-þoturnar af hólmi. Þótt farþegaflugi Air Atlanta á 747-þotum ljúki þar með mun félagið áfram nýta þær til fraktflutninga. Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Air Atlanta, sagði í viðtali við Stöð 2 í fyrra að sem fraktvélar ættu 747-þoturnar mörg góð ár eftir.

Það vakti þjóðarathygli vorið 1993 þegar Air Atlanta, undir stjórn stofnandans Arngríms Jóhannssonar, tók fyrstu Boeing 747-þoturnar í notkun enda voru þær þá stærstu farþegaflugvélar heims. Þær þotur voru einnig merktar Saudia-flugfélaginu, kaupanda þjónustunnar, og sinntu sömuleiðis pílagrímaflugi.

Svo skemmtilega vill til að í fimmta þætti Flugþjóðarinnar, sem er á dagskrá Stöðvar 2 annaðkvöld, mánudagskvöld, klukkan 19:10, fá áhorfendur að kynnast Boeing 747-þotunni. Þá verður áhöfn Air Atlanta á slíkri fraktþotu fylgt í hringferð um Afríku.


Tengdar fréttir

Hreyflarnir hrikalegir á nýju Boeing 777-þotum Atlanta

Flugfélagið Air Atlanta byggir nú upp farþegaflota sinn á ný eftir hrun í covid-faraldrinum og er þessa dagana að bæta við sig tveimur Boeing 777-breiðþotum til viðbótar við tvær sömu gerðar sem félagið fékk í fyrra.

Atlanta með 600 manna flugútgerð í Sádí-Arabíu

Pílagrímaflug Air Atlanta stendur nú sem hæst en flugfélagið er með sexhundruð manns að störfum í Sádí-Arabíu um þessar mundir við að flytja múslima sem þrá að sjá hina helgu borg Mekka. Verkefnin fyrir Saudia-flugfélagið eru þó mun víðtækari en þau eru kjölfestan í rekstri Atlanta.

Stefnir í stærsta ár Air Atlanta með allt að tuttugu breiðþotur

Flugfélagið Air Atlanta hefur fest kaup á fimm nýjum breiðþotum, meðal annars til að nota í umfangsmiklu pílagrímaflugi. Forstjórinn segir stefna í að árið verði það allra stærsta í sögu félagsins með allt að tuttugu risaþotur í rekstri.

Íslenskt flugfélag fjórði stærsti flugrekandi júmbó-þotunnar

Framleiðslu júmbó-risaþotunnar hefur nú verið hætt og hefur síðasta Boeing 747-þotan verið afhent frá verksmiðjunum. Í upprifjun erlendra fjölmiðla á yfir hálfrar aldar sögu hennar hefur komið fram að íslenskt flugfélag er í fjórða sæti yfir stærstu flugrekendur þessarar einstöku flugvélar.

Síðasta Boeing 747-þotan úr flugvélaverksmiðjunni

Síðasta eintak júmbóþotunnar, eða Boeing 747, fór út úr samsetningarverksmiðju Boeing í borginni Everett norðan Seattle í Washington-ríki í gærkvöldi. Þetta er fraktvél af undirtegundinni 747-8 og verður afhent bandaríska vöruflutningafélaginu Atlas Air snemma á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×