Innlent

Bjóða upp á sér­tíma í líkams­rækt fyrir trans og kyn­segin fólk

Jón Ísak Ragnarsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Saga Ósk Björgvinsdóttir og Alex Diljar Birkisbur.
Saga Ósk Björgvinsdóttir og Alex Diljar Birkisbur. Vísir/Bjarni

Hópur trans fólks, kynsegin, og fólks sem er að máta kynvitund sína stundar vikulega líkamsrækt saman á æfingastöð sem býður upp á búningsklefa fyrir öll kyn. Tilgangurinn með hóptímunum er að búa til öruggt rými fyrir hópana til að hreyfa sig og styrkja sig líkamlega.

Boðið er upp á tímana í líkamsræktarstöðinni Afrek.

Hvers vegna eruð þið með sérstaka tíma fyrir trans og kynsegin?

„Því miður er það þannig að mikið af íþróttamiðstöðvum og íþróttum eru ekki aðgengilegar fyrir trans fólk, þannig við leggjum áherslu á að búa til rými þar sem við getum komið saman og æft íþróttir, förum svo og prófum aðrar íþróttir sem eru aðgengilegar, og hafa vettvang til að eignast vini og mynda samfélag,“ segir Alex Diljar Birkisbur, skipuleggjandi Sterkari saman.

Saga Ósk Björgvinsdóttir er þátttakandi í verkefninu.

Saga hvaða þýðingu hefur þetta fyrir þig?

„Þessi hópur var mín hurð inn í trans samfélagið á íslandi og síðan ég byrjaði að mæta hef ég kynnst alls konar fólki, eignast nýja vini, prófað alls konar nýtt. Hérna heyri ég um það sem er að gerast í vikunni, ég byrjaði að æfa nýja íþrótt í gegnum þetta, ég er í betra formi en nokkurn tímann áður. Þetta hefur bara verið gjörbreytandi,“ segir Saga.

Alex segir að þau vilji alltaf bæta í hópinn.

„Þannig ef þú ert trans eða kynsegin eða gender questioning, þá endilega komið og prófið af því að þetta er svo gaman,“ segir Alex.

„Þegar þú ert trans og ert að hugsa um líkamsrækt, þá er alls konar vesen sem að getur gerst og þú þarft að hafa áhyggjur af, sem kemur í veg fyrir að þú drífir þig í að mæta. En þegar ég var að mæta hingað vissi ég allavegana að ég væri að mæta til fólks sem að myndi styðja mig og ég hefði að minnsta kosti eitt sameiginlegt með,“ segir Saga.

Að lokum segir Alex að í þessum tímum sé eina keppnisgreinin vinátta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×