Lægsti meðalaldurinn er í Finnlandi þar sem ungt fólk er að meðaltali 21,4 ára þegar það flytur að heiman. Rétt á eftir Finnlandi eru Svíþjóð og Danmörk þar sem ungt fólk er 21,8 ára þegar það flytur að heima og Eistland þar sem það er 22,8 ára.
Meðalaldur er einnig hár í Slóvakíu þar sem ungt fólk er að meðaltali 31 árs, Grikklandi, þar sem þau eru 30,6 ára og á Spáni þar sem þau eru 30,4 ára. Þetta kemur fram í nýjum gögnum hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.
Þar kemur einnig fram að í fyrra hafi 26 prósent ungs fólks, á aldrinum 15 til 29 ára, búið við þröngan húsakost [e. overcrowded housing]. Í samantekt Eurostat segir að hlutfallið meðal ungs fólks sem bjó við þröngan húsakost hafi verið 9,2 prósent hærri en allra íbúa, hlutfall þeirra var 16,8 prósent.
Meirihluti ungs fólks í Rúmeníu býr við of þröngan húsakost
Hæst var hlutfallið í Rúmeníu þar sem 59,4 prósent ungs fólks býr við of þröngan húsakost, Búlgaríu þar sem hlutfallið er 55,3 prósent og í Lettlandi þar sem hlutfallið er 54,8 prósent. Lægsta hlutfallið er svo í Möltu þar sem það er 3,9 prósent, Kýpur þar sem það var fjögur prósent og Írlandi þar sem það er 4,4 prósent.
Þá kemur fram í samantektinni að í öllum löndum Evrópusambandsins hafi hlutfallið verið hærra meðal ungs fólks en meðal allra íbúa. Í 11 löndum var munurinn meira en tíu prósentustig.
Mesti munurinn var samkvæmt samantekt Eurostat í Búlgaríu þar sem að meðaltali 20,4 prósent búa við of þröngan húsakost, Rúmeníu þar sem hlutfallið er 19,4 prósent og í Grikklandi þar sem hlutfallið er 18,5 prósent almennt. Minnsti munurinn var á írlandi þar sem munaði 0,5 prósent, Möltu þar sem munaði 1,5 prósent og Kýpur þar sem munurinn er 1,8 prósent.
Lengi í foreldrahúsum
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru ekki til sambærilega tölur fyrir Ísland. Hagstofan gaf þó út til ársins 2021 tölur um ungt fólk í foreldrahúsum. Þá bjuggu 43,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára í foreldrahúsum.
Ef miðað var við yngri hópinn, 18 til 24 ára, var hlutfallið 55 prósent en meðal 25 til 29 ára 22,5 prósent. Í öllum aldurshópum var hlutfallið hærra meðal karla en kvenna. Þá var hlutfallið einnig hærra meðal ungs fólks á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Árið 2021 bjuggu 62,6 prósent ungs fólks á aldrinum 18 til 24 ára höfuðborgarsvæðinu í foreldrahúsum en 45,9 prósent ungs fólks á sama aldursbili á landsbyggðinni.