Erlent

Íranskur her­foringi sagður hafa látist í loft­árásum Ísraela

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Esmail Qaani, leiðtogi QUDS-sveitar íranska byltingarvarðarins, á íranska þinginu í Tehran þegar forsetinn Masoud Pezeshkian var svarinn í embætti.
Esmail Qaani, leiðtogi QUDS-sveitar íranska byltingarvarðarins, á íranska þinginu í Tehran þegar forsetinn Masoud Pezeshkian var svarinn í embætti. Getty

Ekkert hefur heyrst til Esmail Qaani, yfirmanns Quds-sveitar íranska byltingarvarðarins, frá því að Ísraelar gerðu loftárásir á Beirút í síðustu viku.

Qaani ferðaðist til Líbanon eftir að Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, lést í loftárásum Ísraela 27. september. Fréttamiðillinn Reuters hefur þetta eftir tveimur háttsettum írönskum öryggisfulltrúum.

Annar fulltrúanna sagði að Qaani hefði verið í úthverfum suðurhluta Beirút, sem heitir Dahiyeh, þegar Ísraelar gerðu loftárás. Sú árás beindist að Hashem Safieddine sem var háttsettur innan Hezbollah og var talinn líklegasti arftaki Nasrallah. 

Fulltrúi Hezbollah segir að Ísraelar meini samtökunum að leita að Safieddine í rústunum. Samtökin hafa sagt að þau muni ekki lýsa yfir andláti Safieddine fyrr en búið er að finna lík hans.

Ísraelski herinn hefur gert fjölda loftárása á Dahiyeh í herferð sinni gegn líbönsku hryðjuverkasveitinni Hezbollah sem er studd af Írönum.

Aðspurður út í fréttir af því að Esmail Qaani hefði verið drepinn í loftárásum Ísraela sagði ísraelski ofurstinn Nadav Shoshani að enn væri verið að leggja mat á afleiðingar loftárásanna.


Tengdar fréttir

„Ein versta nóttin“ í Beirút frá upphafi átaka

Ísraelsher gerði umgangsmiklar loftárásir á Beirút snemma í morgun. Árásirnar eru samkvæmt líbönskum miðlum þær umfangsmestu á svæðinu frá upphafi átakanna. Þá létu minnst nítján lífið í loftárásum Ísraela á mosku í Gasa í nótt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×