Klopp hætti sem knattspyrnustjóri Liverpool í vor, eftir níu ár í því starfi, og var áður stjóri Dortmund og Mainz um árabil.
Nú tekur við nýr kafli hjá þessum 57 ára gamla Þjóðverja sem þó er sagður vera með klásúlu í samningi sínum við Red Bull, sem geri honum kleift að taka við þýska landsliðinu bjóðist það.
„Eftir næstum 25 ár á hliðarlínunni þá gæti ég ekki verið spenntari en fyrir svona verkefni. Hlutverkið mitt hefur breyst en ekki ástríðan fyrir fótbolta og fólkinu sem gerir leikinn að því sem hann er,“ sagði Klopp eftir að Red Bull tilkynnti um ráðningu hans í dag.
Red Bull á knattspyrnufélögin RB Leipzig í Þýskalandi, Red Bull Salzburg og FC Liefering í Austurríki, Red Bull Bragantino í Brasilíu og New York Red Bulls í Bandaríkjunum, en er einnig áberandi til að mynda í akstursíþróttum.
Hlutverk Klopps verður meðal annars að ráðleggja öllum fótboltafélögunum varðandi þjálfun, leikhugmyndafræði, og þróun og kaup á ungum leikmönnum og þjálfurum.
„Með því að ganga til liðs við Red Bull vil ég þróa, bæta og styðja við ótrúlega hæfileikaríka fótboltamenn sem við höfum í okkar röðum. Það eru margar leiðir til þess með því að nýta þá heimsklassa vitneskju og reynslu sem er innan Red Bull, í öðrum íþróttagreinum og iðnaði.
Saman komumst við að því hve langt er hægt að ná. Ég lít á mig sem leiðbeinanda fyrst og fremst, fyrir þjálfara og stjórnendur Red Bull félaganna. En þegar allt kemur til alls er ég hluti af fyrirtæki sem er einstakt, nýstárlegt og horfir til framtíðar. Eins og ég sagði þá gæti ég ekki verið spenntari,“ sagði Klopp.