Hinn 37 ára gamli Matthías gekk í raðir Víkinga fyrir tímabilið 2023 og stóð uppi sem Íslands- og bikarmeistari með liðinu. Hann hefur verið í nokkuð stóru hlutverki framan af tímabilinu í ár en hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur.
Alls hefur hann komið við sögu í 13 leikjum í Bestu deildar karla á leiktíðinni þar sem Víkingar eru í harðri baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn sem og fjórum í Mjólkurbikarnum þar sem Víkingar máttu þola tap gegn KA í úrslitum.
Einnig hefur Matthías spilað þrjá Evrópuleiki á leiktíðinni en Víkingar hafa þegar tryggt sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
„Matti er fyrirmyndar fagmaður og hefur eitthvað að sanna eftir frábært fyrsta tímabil. Hann hefur verið mikilvægur partur af Víkingsliðinu síðastliðin 2 ár og hann er mikil fyrirmynd fyrir okkar yngri leikmenn,“ segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víking, í tilkynningu félagsins sem birtist á samfélagsmiðlum í dag.
Hinn fjölhæfi Matthías hefur leyst stöðu miðvarðar, miðjumanns og framherja. Hann hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari og þá varð hann fjórum sinnum Noregsmeistari er hann lék þar í landi ásamt því að verða bikarmeistari þrívegis.