Upp­gjörið: Haukar - Cocks 35-26 | Haukar fara með gott vega­nesti til Finn­lands

Hjörvar Ólafsson skrifar
Haukar
Vísir/Anton Brink

Haukar fóru með afar sannfærandi 35-26 sigur af hólmi þegar liðið fékk finnska liðið Riihimäki Cocks í heimsókn á Ásvelli í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta karla í kvöld. Bæði lið sátu hjá í fyrstu umferð keppninnar og koma nú inn í aðra umferð. 

Haukar hófu leikinn af gríðarlegum krafti en staðan var 7-1 heimamönnum í vil eftir rúmlega 10 mínútna leik. Eftir það rönkuðu gestirnir aðeins við sér og héldu í horfinu fram að lokum fyrri hálfleiks en þegar fyrri hálfeiknum lauk var staðan 18-11 fyrir Hauka.

Leikmenn Hauka fundu taktinn aftur í seinni hálfleik og komust mest 15 mörkum yfir en staðan var 35-20 þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Þá slökuðu Haukar á klónni og finnska liðið náði að klóra í bakkann með sex mörkum í röð og niðurstaðan varð svo níu marka sigur Hauka. 

Birkir Snær Steinsson skoraði fyrstu tvö mörk leiksins og varð að lokum markahæstur hjá Haukum með sjö mörk. Skarphéðinn Ívar Einarsson og Þráinn Orri Jónsson komu næstir með fimm mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson varði 12 skot í leiknum þar af eitt vítakast. Aron Rafn skoraði þar að auki þrjú mörk. 

Haukar léku án Geirs Guðmundsson og Ólafs Ægis Ólafssonar í þessum leik en það kom ekki að sök hjá Hafnarfjarðarliðinu. Guðmundur Hólmar Helgason lék aftur á móti sinn fyrsta leik á þessu keppnistímabili en hann stóð vaktina með stakri prýði í vörn Haukaliðsins. Það er jákvætt fyrir Hauka að endurheimta Guðmund Hólmar.

Liðin eigast við í seinni leik sínum í einvíginu í Finnlandi á laugardaginn eftir tæpa viku. 

Ásgeir Örn: Fyrst og fremst ánægður með sigurinn

„Ég er bara fyrst og fremstur ánægður með sigurinn og fara með góða stöðu inn í seinni leikinn.  Við spiluðum heilt yfir vel í þessum leik og það var fjölmargt jákvætt í frammistöðu okkar,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, að leik loknum. 

„Þetta er líkamlega sterkt lið með öfluga leikmenn innanborðs. Við fengum áminningu um það undir lok leiksins að við getum ekki farið inn í seinni leikinn með neina værukærð. Ef við förum ekki inn í það verkefni af fullum krarfti þá fer illa fyrir okkur,“ sagði Ásgeir Örn enn fremur.

„Sóknaleikurinn hjá okkur var fjölbreyttur sem hefur ekki verið uppi á teningnum í vetur. Það var gaman að sjá Birki og Skarphéðin skora mörk í öllum regnbogans litum og hversu margir leikmenn lögðu eitthvað í púkkinn í sókninni,“ sagði þjálfarinn aðspurður um hvað hefði glatt hann mest.

„Það er líka mjög gott að fá Guðmund Hólmar aftur inn í þetta hjá okkur. Hann er búinn að vera ofboðslega duglegur í endurhæfingunni og er að uppskera eins og hann hefur sáð. Endurkoma hans gefur okkur möguleika á að rótera meira í hjarta varnarinnar sem er mikilvægt,“ sagði Ásgeir Örn. 

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka. Vísir/Vilhelm

Atvik leiksins

Þráinn Orri lokaði fyrri hálfleiknum með því að skora beint úr miðju með síðasta skoti fyrri hálfleiksins. Það gaf Haukum byr undir báða vængi fyrir seinni hálfleiknum og heimamenn hömruðu járnið meðan það var heitt þegar seinni hálfleikurinn hófst. 

Stjörnur og skúrkar

Birkir Snær og Skarphéðinn Ívar fóru fyrir sóknarleik Hauka í þessum leik og Þráinn Orri var öflugur á báðum endum vallarins. Aron Rafn varði vel á köflum. Guðmundur Hólmar var flottur í vörn Hauka. 

Dómarar leiksins

Florian Hofer og Andreas Schmidhuber, dómarar leiksins, voru nánast ósýnilegir í þessum leik og það er jákvætt þegar kemur að þeim sem halda utan um flautukonsertinn. Gott er að konsertinn sé lágstemmdur og án þess að vekja athygli þeirra sem taka þátt í leiknum eða horfa á hann. 

Stemming og umgjörð

Þokkaleg mæting var á Ásvelli í kvöld og ung en vösk stuðningsmannasveit Hauka sáu til þess að stemmingin var með fínasta móti á þessu Evrópukvöldi í Hafnarfirðinum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira