Innlent

Lætur af störfum sem bæjar­stjóri Voga

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Gunnar Axel Axelsson varð bæjarstjóri Voga fyrir tveimur árum.
Gunnar Axel Axelsson varð bæjarstjóri Voga fyrir tveimur árum. Vísir

Gunnar Axel Axelsson lét af störfum sem bæjarstjóri Voga í dag vegna veikinda, en hann hefur verið að glíma við langtímaafleiðingar af Covid 19.

„Ég hef verið að glíma við veikindi að undanförnu, langtímaafleiðingar af Covid 19. Ég gerði ráð fyrir því að geta komið aftur til starfa í haust, en staðan er þannig að ég mat hana þannig að það væri sveitarfélaginu og sjálfum mér til hagsbóta að óska eftir því að láta af störfum,“ segir Gunnar.

Gunnar Axel er viðskipta- og stjórnsýslufræðingur að mennt, og starfaði á efnahagssviði Hagstofu Íslands áður en hann var ráðinn bæjarstjóri árið 2022. Áður hafði hann setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar á árunum 2010-2018 og sinnti m.a. formennsku í bæjarráði og fjölskylduráði auk annarra nefndarstarfa.

„Nú ætla ég bara að einbeita mér að heilsunni,“ segir Gunnar, sem er vongóður um framhaldið og þrátt fyrir allt fullur bjartsýni á framtíðina.

Ítarlegt viðtal við Gunnar má finna á síðu Víkurfrétta, þar sem hann fjallar um veikindi sín og störf.


Tengdar fréttir

Gunnar Axel nýr bæjarstjóri Voga

Gunnar Axel Axelsson, viðskipta- og stjórnsýslufræðingur og deildarstjóri á efnahagssviði Hagstofu Íslands hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga og tekur við af Ásgeiri Eiríkssyni sem var bæjarstjóri Voga í rúm tíu ár. Alls sóttu fjörutíu umsækjendur um starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×