Körfubolti

Lang­þráður meistaratitill til New York

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn New York Liberty fagna WNBA meistaratitlinum.
Leikmenn New York Liberty fagna WNBA meistaratitlinum. getty/Elsa

New York Liberty varð í nótt WNBA meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir sigur á Minnesota Lynx, 67-62, í framlengdum oddaleik. Liberty vann einvígið, 3-2.

Jonquel Jones skoraði sautján stig fyrir Liberty og var valin verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins. Stórstjarnan Sabrina Ionescu klikkaði á átján af nítján skotum sínum en það kom ekki að sök. Breanna Stewart skoraði þrettán stig og tók fimmtán fráköst fyrir Liberty.

„Það er ekkert sem jafnast á við þessa tilfinningu,“ sagði Stewart eftir leikinn. 

„Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir hvert sem við höfum farið. Að koma með meistaratitil til New York, þann fyrsta í sögu félagsins, er ótrúlegt. Ég get ekki beðið eftir því að fagna með borgarbúum. Það verður brjálað.“

Liberty tapaði í fyrstu fimm úrslitaeinvígunum sem liðið komst í (1997, 1999, 2000, 2002 og 2023) en vann loks titilinn í ár.

Þetta er fyrsti meistaratitill New York í stórri körfuboltadeild síðan New York Knicks varð NBA meistari 1973. New York Nets vann ABA deildina 1976 en þá voru aðeins sjö lið í deildinni og New York Stars vann WBL, kvennakörfuboltadeild sem var starfrækt á árunum 1978-81, fyrir 44 árum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×