Fréttastofa hefur ákæru undir höndum, en ekki liggur fyrir hversu gamall drengurinn var þegar atvik málsins áttu sér stað, eða hvort eða hvernig konan og drengurinn tengist.
Konunni er gefið að sök að grípa fast um hönd drengsins og neyða hann með því að draga hann frá leikvelli og upp tröppur sem lágu að heimili konunnar.
Fram kemur að þar hafi drengnum tekist að slíta sig lausan og hlaupa niður tröppurnar, en konan hafi elt hann og náð honum aftur, gripið í hann og ýtt honum upp að vegg og haldið honum þar en sleppt honum þegar hún varð þess vör að tveir einstaklingar komu þar að.
Fyrir vikið hlaut drengurinn skrámur víðs vegar um líkamann. Í ákæru segir að konan hafi með þess sýnt drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi auk ógnandi og vanvirðandi framkomu.
Þess er krafist fyrir hönd foreldra drengsins að konan greiði þeim 500 þúsund krónur vegna málsins.
Það er héraðssaksóknari sem höfðar málið, en hann krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.