Vipers, sem varð Evrópumeistari í handbolta kvenna þrjú ár í röð árin 2021-23, þurfti að útvega 25 milljónir norskra króna á þremur dögum, eða rúmlega 315 milljónir íslenskra króna, til að halda sér á lífi.
Hluthafa hafa nú tekið yfir glæfralegan rekstur félagsins sem á fjórum árum tvöfaldaði til að mynda launakostnað til leikmanna.
„Ég ætla ekki að fella neina dóma yfir fólkinu sem hefur staðið í þessu. Ég veit að þetta er erfitt og krefjandi. En auðvitað kom það manni í opna skjöldu að þetta væri svona mikið,“ sagði Þórir við norska ríkismiðilinn NRK.
Þórir er búinn að fá norska landsliðið saman vegna fjögurra liða æfingamóts sem fram fer í Larvik í þessari viku, á sama tíma og íslenska landsliðið mætir Pólverjum hér á landi á föstudag og laugardag.
Í norska landsliðshópnum eru til að mynda markverðirnir Silje Solberg-Östhassel og Katrine Lunde, leikmenn Vipers, sem Þórir er meðvitaður um að hafi haft um ýmislegt að hugsa í þeim rússíbana sem Vipers hefur verið í að undanförnu.
„Ég held að á vissan hátt sé gott fyrir þær að vera komnar hingað [í landsliðsverkefni]. Við leggjum ekki of mikið á þær, svo að þær hafi tíma til að melta allt það sem þær hafa verið að ganga í gegnum og það sem þær standa í,“ sagði Þórir sem enn stýrir norska landsliðinu en hættir með það eftir EM í desember.