Handbolti

Aftur­elding á toppinn og Grótta tapar enn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Afturelding ætlar sér stóra hluti í vetur. Árni Bragi Eyjólfsson var með fimm mörk og þrjár stoðsendingar í kvöld.
Afturelding ætlar sér stóra hluti í vetur. Árni Bragi Eyjólfsson var með fimm mörk og þrjár stoðsendingar í kvöld. Vísir / Anton Brink

Afturelding komst á toppinn í Olís deild karla í handbolta í kvöld eftir sjö marka sigur á Stjörnunni í Garðabænum.

Mosfellingar hafa unnið fjóra deildarleiki í röð og eru með eins stigs forskot á FH sem byrjaði daginn á toppnum.

Afturelding vann leikinn 36-29 eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 14-13.

Þorvaldur Tryggvason og Ihor Kopyshynskyi skoruðu báðir sjö mörk fyrir Aftureldingu í kvöld og þeir Hallur Arason og Árni Bragi Eyjólfsson voru með fimm mörk hvor.

Tandri Már Konráðsson skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna en það dugði ekki. Markverðir liðsins vörðu aðeins fjórtán prósent skotanna sem komu á þá í leiknum.

Gróttumenn byrjuðu tímabilið frábærlega með fjórum sigrum í fyrstu fimm leikjum sínum en þeir töpuðu þriðja leiknum í röð í kvöld þegar þeir heimsóttu Fjölnismenn í Grafarvog.

Nýliðar Fjölnis unnu þriggja marka sigur, 31-28. Staðan var 29-28 undir lok leiksins en Fjölnismenn skoruðu tvö síðustu mörkin og var Victor Máni Matthíasson á ferðinni í bæði skiptin.

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni og Gísli Rúnar Jóhannsson var með fimm mörk.

Jón Ómar Gíslason skoraði átta mörk úr níu skotum fyrir Gróttu en það var ekki nóg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×