Körfubolti

„Þegar þjálfarinn er í besta forminu þá er það ekki nógu gott“

Siggeir Ævarsson skrifar
Pétur getur í það minnsta huggað sig við það að vera í fanta formi
Pétur getur í það minnsta huggað sig við það að vera í fanta formi Vísir/Hulda Margrét

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, þurfti að sætta sig við fjórða tapið í fimm leikjum í kvöld þegar lið hans steinlá gegn Vali, 104-80.

Leikurinn var jafn og spennandi þar til í lokin þegar Keflvíkingar virtust hreinlega verða bensínlausir en liðið skoraði aðeins 13 stig í loka leikhlutanum. Aðspurður hvað gerðist þar gat Pétur ekki gefið neinar haldbærar skýringar.

„Já, það er góð spurning. Við hittum ekki vel og þeir hittu vel.“

Það er ekki flóknara en það?

„Hugsanlega ekki, en af hverju hittum við ekki vel og af hverju hittu þeir vel? Það er kannski spurningin.“

Wendell Green, stigahæsti leikmaður Keflavíkur, fór meiddur af velli í stöðunni 81-74, en Pétur vildi ekki meina að það hefði verið neinn sérstakur vendipunktur í leiknum.

„Ég held að hann hefði kannski ekkert breytt þessu einn. Þetta er liðsíþrótt og við þurfum aðeins eitthvað að skoða okkar mál.“

Næstu þrír leikir Keflavíkur eru gegn nýliðum KR og ÍR og gegn sigurlausu liði Hauka. Fyrirfram ættu þetta að vera þrír skyldusigrar en Pétur nálgast þessa leiki af varfærni í ljósi stöðunnar.

„Við vorum ekki að stefna að því að vera í botnbaráttu. Að sjálfsögðu. Liðið hefur fullt af hæfileikum sem ég hef en við erum bara ekki alveg að finna lausnir á því sem við erum að gera inn á vellinum. Hvorki sóknar- né varnarlega.“

Keflvíkingar virkuðu orkulausir í lokin, en Pétur taldi ástæðuna þó ekki vera að hann væri að ofgera mönnum á æfingum.

„Ég held að það sé akkúrat öfugt. Ég þarf að taka aðeins harðar á þeim og við þurfum aðeins að hlaupa meira, sýnist mér. Þegar þjálfarinn er í besta forminu af leikmönnum þá er það ekki nógu gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×