Innlent

Segir ís­lenska ríkið for­dæma á­kvörðun ísraelska þingsins

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þórdís Kolbrún segir íslenska ríkið fordæma ákvörðun ísraelska þingsins um að banna starfsemi UNRWA.
Þórdís Kolbrún segir íslenska ríkið fordæma ákvörðun ísraelska þingsins um að banna starfsemi UNRWA. Vísir/Einar og EPA

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra fordæmir ákvörðun ísraelska þingsins um að banna Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í Ísrael og að skilgreina stofnunina sem hryðjuverkasamtök. Samkvæmt samþykkt þingsins á stofnunin að láta af starfsemi innan 90 daga.

Þórdís Kolbrún fordæmir þessa ákvörðun í tilkynningu á samfélagsmiðlinum X. Þar segir hún að íslenska ríkið fordæmi þessa ákvörðun ísraelska þingsins. Þessi ákvörðun muni koma í veg fyrir að UNRWA geti starfað á heimastjórnarsvæði Palestínumanna auk þess sem ákvörðunin setji hættulegt fordæmi í marghliða alþjóðlegu samstarfi.

Tilkynning Þórdísar Kolbrúnar á samfélagsmiðlinum X.X

„UNRWA er partur af Sameinuðu þjóðunum og vinna þeirra bjargar lífum og er nauðsynleg milljónum palestínska flóttamanna, þar á meðal þeirra á Gasa,“ segir að lokum í tilkynningu Þórdísar Kolbrúnar.

Ákvörðunin hefur vakið hörð viðbrögð og menn meðal annars varað við því að annarri neyðaraðstoð sé ekki til að dreifa á Gasa, þar sem fjöldi fólks býr við afar bágar aðstæður og fæðuskort. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa einnig lýst yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin.

Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri UNRWA, sagði í dag ákvörðunina fordæmalaus og hættulegt fordæmi. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt Ísraela til að standa við skuldbindingar sínar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og sagt að ekki sé hægt að fara á svig við þær með því að breyta innlendum lögum.


Tengdar fréttir

Naim Qassem tekur við stjórn Hezbollah

Forsvarsmenn Hezbollah samtakanna í Líbanon tilkynntu í morgun að Naim Qassem myndi taka við stjórnartaumunum af Hassan Nasrallah, sem felldur var í loftárás í síðasta mánuði. Qassem var næstráðandi Hezbollah en Hashem Safieddine, sem var arftaki Nasrallah, var einnig felldur í loftárás í byrjun október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×