Frá þessu greinir spænski ríkismiðillinn TVE og hefur eftir lögreglunni í Valensía. Í frétt TVE segir að héraðsstjórnin í Valensía hafi komið á fót nefnd í gær til þess að leggja mat á eyðilegginguna.
Haft var eftir héraðsstjóranum Carlos Mazón í morgun að tala látinni myndi að öllum líkindum hækka skarpt en þá höfðu þrettán látist.
Myndefni frá lögreglunni á Spáni sýnir eyðilegginguna og frá björgunarstarfi í nótt. Það má sjá í spilaranum hér að neðan en er fengið frá AP-fréttaveitunni:
Sex saknað í þúsund manna bæ
Hann sagði við fréttamenn í gærkvöldi að nöfn hinna látnu hafi ekki verið gerð opinber af virðingu við fjölskyldur þeirra.
Þá er sex saknað í bænum Letur, þar sem aðeins um þúsund manns búa, en bærinn er í austurhéraðinu Albacete. Tjónið á svæðunum er gríðarlegt og björgunarfólk er enn að störfum og hefur verið í alla nótt.
Í Valensía-héraði hefur öllu skólastarfi verið aflýst í dag og opinberum byggingum hefur einnig verið lokað.
Talsvert um Íslendinga í nágrenninu
Talsverður fjöldi Íslendinga býr eða hefur vetursetu á Spáni, margir í Valensía og nágrenni. Þorri Íslendinga á Spáni býr þó á Costa Blanca svæðinu, sem er í rúmra tveggja tíma aksturfjarlægð frá Valensía. Ekki hafa borist fregnir af flóðum þar.
Athygli er vakin á flóðunum í Facebook-hópnum Íslendingar á Costa Blanca.
Einn í hópnum sem staddur er á Torrevieja, þar sem fjöldi Íslendinga er, segir smá gust hafa verið þar en ekkert til að ræða um.
Engar beiðnir um aðstoð hafa borist borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins frá íslenskum ríkisborgurum vegna flóða á Spáni.
Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins, að utanríkisráðuneytið fylgist grannt með stöðu mála og vilji brýna fyrir íslenskum ríkisborgurum á svæðinu að fara í einu og öllu eftir tilmælum viðbragðsaðila og fylgjast náið með staðbundnum fjölmiðlum.
Veistu meira um málið? Áttu myndefni af svæðinu? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.
Fréttin hefur verið uppfærð.