Tveimur dögum áður hafði Trump haldið ræðu í New York þar sem hann sagði Harris „lestaslys“ sem eyðilagði allt sem á vegi hennar yrði. Bandamenn hans sem hituðu upp fyrir Trump lýstu Harris sem vændiskonu, djöfli og töluðu um Puerto Rico sem „fljótandi rusleyju“.
Þá hét Trump því að flytja milljónir manna frá Bandaríkjunum á hans fyrstu dögum í starfi.
Sjá einnig: Orðljótir stuðningsmenn Trump létu gamminn geisa í New York
Eins og frægt er, er Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Ræðuna hélt hún í Washington DC, á sama stað og Trump hélt ræðu þann 6. janúar 2021, og segir framboð hennar að um 75 þúsund manns hafi hlustað.
„Eftir færri en níutíu daga mun annað hvort Donald Trump eða ég vera í skrifstofu forsetans,“ sagði Harris og benti í átt að Hvíta húsinu.
„Á sínum fyrsta degi, verði hann kjörinn, mun Donald Trump ganga inn á skrifstofuna með lista yfir óvini sína. Verði ég kjörinn, mun ég mæta með verkefnalista.“
Harris varði miklum ræðutíma í að reyna að sannfæra bandaríska kjósendur um að Trump legði alltaf meiri áherslu á eigin hag og það á kostnað Bandaríkjanna.
„Donald Trump hefur varið áratug í að reyna að halda Bandaríkjamönnum sundruðum og hrædda við hvorn annan. Þannig er hann,“ sagði Harris meðal annars og bætti hún við að bandaríska þjóðin hugsaði ekki þannig.
„Ég heiti því að verða forseti allra Bandaríkjamanna. Að setja hag landsins alltaf ofar mínum hag.“
AP fréttaveitan hefur eftir nánum ráðgjafa Harris að ræða hennar hafi meðal annars beinst að þeim örfáu kjósendum sem hafi ekki enn ákveðið sig hvern þeir ætli að kjósa og þar á meðal séu Repúblikanar á frjálslyndari kantinum.
Harris sagði einnig að Trump myndi aftur reyna að fella hið svokallaða heilbrigðislög Baracks Obama (e. Affordable care act) úr gildi en þau tryggja milljónum Bandaríkjamanna aðgang að sjúkratryggingum og kannanir sýna að þau njóta mikilla vinsælda.
Hún sagði einnig að Trump myndi lækka skatta á auðugasta fólk Bandaríkjanna en að hún myndi berjast fyrir lægra vöruverði og lækka kostnað Bandaríkjamanna með ýmsum leiðum.
Þá varaði Harris við því að með Trump í Hvíta húsinu myndu Repúblikanar ganga enn lengra til að draga úr rétti kvenna til þungunarrofs.
„Ég mun berjast til að endurbyggja það sem Donald Trump og sérvaldir hæstaréttardómarar hans tóku frá konum Bandaríkjanna.“