Innlent

Borgin lúffar fyrir að­dá­endum áramótabrenna

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðbragðs- og eftirlitsaðilar hafa lýst áhyggjum af áramótabrennum. Frá áramótabrennu í Kópavogi.
Viðbragðs- og eftirlitsaðilar hafa lýst áhyggjum af áramótabrennum. Frá áramótabrennu í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Meirihlutinn í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar ætlar að leggja til að fallið verði frá tillögu um að fækka áramótabrennum. Ástæðan er sögð mikil hvatning frá íbúum og íbúaráðum.

Ráðið samþykkti erindi um að fækka áramótabrennum úr tíu í sex á fundi sínum á miðvikudag. Vísaði það til beiðna frá slökkviliði, lögreglu og heilbrigðiseftirliti sem telji hættu af brennunum, meðal annars vegna nálægðar við byggð, umferðaröryggi og neikvæðra umhverfisáhrifa. Þá hafi brennurnar orðið dýrari fyrir borgina þar sem nú þurfi að kaupa efni í þær en ekki nýta það sem fellur til.

Nú segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður ráðsins og borgarfulltrúi Pírata, að fallið verði frá tillögunni um að fækka brennunum. Í færslu á Facebook segir hún það gert eftir „mikla hvatningu frá íbúum og íbúaráðum“.

„Sömuleiðis verði skoðað hvernig hægt er að mæta athugasemdum viðbragðsaðila án þess að afleggja brennurnar,“ skrifar hún.

Þá ætli meirihlutinn að leggja til að eiga samráð við íbúa og viðbragðsaðila á næsta ári um staðsetningar brennanna til lengri tíma litið. Þar eigi að ræða mögulega nýjar staðsetningar eða aðrar breytingar til þess að mæta ólíkum sjónarmiðum.

„Hér er um tilfinninga- og hitamál að ræða sem þarf að ígrunda betur að mínu mati. Þegar kemur að umhverfisþættinum þá er ég uppteknari af stærri og áhrifaríkari aðgerðum í þeim efnum en svona token aðgerðum,“ skrifar Dóra Björt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×