Skoðun

Verk­lausi milljóna­kennarinn

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar

Opinber umfjöllun um kennarastarfið einkennist þessa dagana mest af sleggjudómum og fáfræði. Svo virðist sem stjórnmálamenn telji það sér til tekna að tala niður störf kennara og fólkið sem gegnir þeim. Verklaust fólk sem gerir kröfu um milljón krónur á mánuði! Kennarar hafa að sjálfsögðu svarað fyrir sig í fjölmiðlum en það er dapurlegt að verða svona rækilega vör við virðingarleysið sem grasserar í garð kennarastéttanna, allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

Eitt af því sem KÍ hefur bent á er krafan um jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins en þá er miðað við sambærileg kjör háskólamenntaðs fólks á almenna vinnumarkaðnum. Sú krafa byggir á samkomulagi um lífeyriskerfi opinberra starfsmanna frá árinu 2016. Það gerðu fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkisins, Sambandið fyrir hönd sveitarfélaganna, BSRB, BHM og Kennarasambandið. Með samkomulagi voru lífeyriskjör jöfnuð á milli markaða en ríki og sveitarfélög skuldbundu sig til að jafna launamuninn á milli þessara sömu markaða. Það hefur enn ekki verið gert átta árum síðar.

Góð vinkona mín, sem er grunnskólakennari með 35 ára starfsreynslu, deildi launaseðlinum sínum með mér á dögunum. Hún er umsjónarkennari í 1. bekk grunnskóla. Heildarlaun hennar fyrir fulla vinnu eru 758.048 krónur á mánuði. Hvorki meira né minna. Strípað þingfararkaup er 1.459.841 króna á mánuði. Ég leyfi lesendum að leggja mat á það hvor okkar sé verðugri launanna.

Sem þingkona og fyrrverandi forystukona bandalags stéttarfélaga geri ég mér fulla grein fyrir því að launahækkanir eru sjaldnast teknar í stórum stökkum en aðilar vinnumarkaðarins og viðsemjendur kennara geta ekki hunsað kröfur kennara um jöfnun launa á milli markaða. Þeim þarf að svara og þær þarf að ræða við samningsborðið. Í þetta sinn búa opinberir starfsmenn meira að segja svo vel að félagar þeirra innan ASÍ sýn kröfunum skilning og stuðning. Það veit á gott, því að aðilar vinnumarkaðarins geta, ef þeir vilja, verið samtaka um að bæta laun og kjör kennara á Íslandi.

Höfundur situr á þingi fyrir Samfylkinguna – jafnaðarflokk Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×