Útkallið barst slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um klukkan þrjú í nótt. Pálmi Hlöðversson, varðstjóri í aðgerðastjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, gerir ráð fyrir því að íbúar hafi verið sofandi þegar eldurinn kviknaði. Slökkvistarf gekk vel en tjónið sé mikið. Reykkafarar gengu fram á hund heimilisins sem var ekki með lífsmarki. Endurlífgunartilraunir voru gerðar en báru ekki árangur.
„Þetta var töluvert mikið og mikill reykur þegar við komum þarna að,“ segir Pálmi. Fólkið hafi verið í áfalli. „Eðlilega. Alltaf þegar svona tjón kemur upp er eðlilega mikið áfall.“
Slökkviliðsmenn voru á vettvangi til klukkan fimm í morgun.
„Þetta hefur verið ströng og erfið nótt,“ segir Pálmi og fær í sömu andrá meldingu um brunaboð. „Þetta er bara búið að vera svona,“ bætir hann við. Verkefni á sjúkrabílum hafi einnig verið óvenjumörg, sextíu talsins.
Hefði getað farið mun verr
Lögregla hefur nú tekið við vettvangi en hefur þó ekki enn farið inn í húsið. Eldsupptök eru ókunn.
„Það verður bara metið hvort það verður í dag eða á morgun sem vettvangsrannsókn hefst formlega,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Varð altjón?
„Já, tjónið á íbúðinni er mjög mikið,“ segir Ásmundur. „Það hefði svo sannarlega getað farið mun verr. Þarna er um íbúð í raðhús að ræða og eldurinn hefði getað breiðst út í nærliggjandi íbúðir en það tók slökkviliðið stuttan tíma að ráða niðurlögum eldsins.“