Trump verður því 47. forseti Bandaríkjanna, til viðbótar við að hafa verið 45. forsetinn. Hann er 78 ára gamall og mun því væntanlega slá aldursmet Joes Biden, sem er nú elsti forseti Bandaríkjanna.
Þegar þetta er skrifað er ekki búið að lýsa yfir sigurvegara í Alaska en það verður að öllum líkindum Trump og þá verður hann kominn yfir 270 kjörmenn. Fox News er þó enn sem komið er eini miðilinn vestanhafs sem hefur lýst yfir sigri Trumps í kosningunum öllum.
Þá er einnig útlit fyrir að Trump muni fá fleiri atkvæði en Harris á landsvísu, sem er í fyrsta sinn. Árið 2016, þegar hann sigraði Hillary Clinton, fékk hann færri atkvæði en hún.
Trump mun taka við völdum af Joe Biden þann 21. janúar næstkomandi.
Þá verður hann annar forsetinn til þess að gegna embættinu í tvígang, það er að segja án þess að sitja tvö kjörtímabil í röð. Hinn var demókratinn Grover Cleveland sem var Bandaríkjaforseti fyrst 1885 til 1889 og svo aftur 1893 til 1897. Cleveland var 22. og 24. forseti Bandaríkjanna.
Þá er Trump fyrsti maðurinn sem dæmdur hefur verið fyrir glæp sem kosinn er forseti Bandaríkjanna.
Í ræðu sinni í Flórída, þar sem hann lýsti yfir sigri sagðist Trump ætla að gera Bandaríkin betri en þau hafa nokkurn tímann verið áður.
Enn óljóst með fulltrúadeildina
Repúblikanar hafa eining tryggt sér meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Enn er óljóst hvernig staðan verður í fulltrúadeildinni á næsta kjörtímabili en sérfræðingum þykir líklegast að sama hvor flokkurinn nái meirihluta þar, verði sá meirihluti tiltölulega lítill.
Sjá einnig: Repúblikanar ná meirihluta í öldungadeildinni
Takist Repúblikönum að ná meirihluta í fulltrúadeildinni er fátt sem getur staðið í vegi Trumps næstu tvö árin, að minnsta kosti. Nái Demókratar meirihluta munu þeir geta staðið í vegi Trumps þegar kemur að lagasetningu og þar að auki stýriri fulltrúadeildin fjárlögum Bandaríkjanna.