Skoðun

Börn laga ekki bein­brot

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir skrifar

Sem barn með ógreint ADHD átti ég það til að týna öllu. Íþróttatöskur, handklæði, lyklar, síminn - nefndu það og ég týndi því. Þegar ég var níu ára týndi ég körfuboltaskónum mínum, korter í æfingu. Ég lét mig hafa það og mætti á æfingu, skólaus. Reyndir leikmenn geta alveg séð hvert þetta stefnir, ég tábrotnaði. Ég teipaði saman tærnar í einhverju flýti og dröslaðist svo heim. Það þarf engan sérfræðing til að vita að níu ára barn sé ekki best til þess fallið að laga beinbrot. Mamma mín vissi það svo við fórum á bráðamóttökuna, ég níu ára og kjökrandi en mjög fegin að enda ekki með afmyndaða tá eða verki til lengri tíma.

Tábrotið mitt fékk skjóta afgreiðslu áður en vandinn varð þungur og þörf var á miklum aðgerðum. Því miður hefur samfélagið brugðist þeim börnum sem glíma við ósýnilegan sársauka, það er ekki fyrr en verkir eru langvarandi og andlegt ástand nánast afmyndað sem við segjum „björgum börnunum“. Börnin eiga betra skilið en svo. Þau eiga ekki að þurfa að teipa brotin sín með vímuefnum. Þau eiga ekki að þurfa að teipa brotin sín með ofbeldi. Þau eiga ekki að þurfa að teipa brotin sín sjálf.

Við eigum að vera fyrirmyndarsamfélag í málefnum barna og ungmenna. Við eigum ekki að sætta okkur við að geðheilsa þeirra fari versnandi. Við eigum ekki að sætta okkur við að ofbeldi sé að aukast. Það þarf að styrkja þjónustu við börn á öllum stigum. Að laga hlutina strax þegar kemur að börnum er líka oftast ódýrara en að bíða með það. Í þyngsta málaflokknum er úrræðaleysi til staðar. Á Íslandi eru starfrækt tvö meðferðarheimili, Stuðlar í Reykjavík fyrir ungmenni og Bjargey í Eyjafirði fyrir stúlkur og stálp. Vöntun er á heimili sem einungis er ætlað drengjum. Það vantar langtíma meðferðarúrræði fyrir drengi. Við þurfum mun fleiri og sérhæfðari úrræði í málaflokkinn sem grípa utan um fjölbreyttan hóp barna. Breytum þessu.

Áður en börn þurfa á sérhæfðum úrræðum að halda þarf að hjálpa þeim að teipa brotið. Útrýmum biðlistum, bjóðum þeim ókeypis sálfræðiþjónustu, sköpum þeim samfélag þar sem þau fá að blómstra. Ég hef verið spurð hvort þjálfarinn hefði ekki leyft mér að vera á útiskónum, hvort ég hefði getað fengið lánaða skó og hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að koma í veg fyrir tábrotið. Því spyr ég, hvers vegna erum við ekki að fyrirbyggja vímuefnaneyslu barna, ofbeldisbrot og að áföll fylgi þeim út ævina? Við þurfum að tryggja öllum börnum nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Við þurfum að ráðast í átak gegn úrræðaleysinu sem blasir við. Við þurfum að koma til móts við starfsfólkið á gólfinu sem berst í bökkum dag hvern að tryggja börnum öruggt umhverfi. Það þarf engan sérfræðing til að vita að níu ára barn sé ekki best til þess fallið að laga beinbrot.

Höfundur er barnasálfræðingur og varaþingmaður Viðreisnar og situr í 4. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×