„Þetta hefur verið æðislegt en meiri vinna en maður bjóst við,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi. „Þetta er gríðarleg vinna. Vakna snemma, langir dagar, mikið af ferðalögum sem er mjög þreytt. Þau eru svakalega löng.
Maður reynir að læra tungumálið þarna. En það er auðvitað flókið. Lífið er annars yndislegt þarna úti hjá okkur. Við erum bara helvíti ánægð með þetta. Algjört ævintýri og draumur fyrir mig að vera atvinnumaður. Ég myndi ekki vilja gera neitt annað.“
„Tel mig geta spilað á móti hvaða leikmönnum sem er“
Fyrsta skrefið af vonandi mörgum á farsælum atvinnumannaferli Þorsteins sem hefur látið til sín taka í efstu deild Portúgals þar sem að hann er markahæsti leikmaður Porto til þessa með 60 mörk í ellefu leikjum. Tölfræði sem gerir þennan íslenska risa upp á 208 sentímetra að þriðja markahæsta leikmanni deildarinnar og það í einu af þremur stærstu félögum Portúgals.
„Það eru mjög fáir sem eru í minni hæð þarna úti. Það er dálítið mikið horft upp til manns þarna. Þeir spila allt öðruvísi handbolta. Mjög hraðan handbolta og eru mikið í klippingum. Jú þessi bolti hentar mér, þeir eru lávaxnir eiga ekki auðvelt með að blokkað mig og þar fram eftir götunum. Hentar mér vel að geta spilað á móti þannig leikmönnum. Ég tel mig hins vegar geta spilað á móti hvaða leikmönnum sem er.“
Stefnir á Ólympíuleika með systur sinni
Og Þorsteinn er ekki sá eini í sinni fjölskyldu sem er að gera gott mót sem íþróttamaður. Systir hans Erna Sóley Gunnarsdóttir varð fyrst íslenskra kvenna til að keppa í kúluvarpi á Ólympíuleikum síðastliðið sumar í París. Þau systkinin stefna á Ólympíuleika saman í framtíðinni.
„Það er langt síðan að við ræddum þetta fyrst. Við ætluðum okkur að vera saman á síðustu Ólympíuleikum. Hún komst, ekki ég. Þá er það bara næsta markmið að vera bæði á Ólympíuleikunum í Bandaríkjunum, Los Angeles.
Þú hlýtur að hafa horft stoltur á hana á Ólympíuleikunum?
„Jú ég var mjög stoltur af henni. Hún stóð sig bara prýðilega vel . Ég er mjög stoltur af henni.“