Um er að ræða 178 fermetra íbúð á annarri hæð í fjölbýlishúsi við Reykjavíkurhöfn sem var byggt árið 2019. Hjónin festu kaup á eigninni í desember 2021 og greiddu 219 milljónir fyrir.
Í lýsingu eignarinnar kemur fram að mikill metnaður hafi verið lagður í hönnun hússins og ekkert hafi verið til sparað við byggingu þess. Þá opnast lyftan beint inn í íbúðina. Í miðju byggingarinnar er skjólgóður garður sem býður upp á friðsæla og afslappaða stemningu, fjarri amstri borgarlífsins.

Munaður og smekklegheit
Allar innréttingar eru sérsmíðaðar úr amerískri hnotu af ítalska handverkshúsinu Gili Creations. Kvarts borðplata er í eldhúsi og eldhúseyjan er klædd marmaraflísum.
Stofa, eldhús og borðstofa flæða saman í eitt í opnu og björtu rými með lofthæðarháum gluggum og stórbrotnu útsýni yfir höfnina. Á gólfum er gegnheilt burstað planka parket úr eik. Í íbúðinni eru tvö svefnherbregi og þrjú baðherbergi.
Íbúðin er smekklega innréttuð og einkennist af miklum munaði þar sem klassísk hönnun, formfögur húsgögn og listaverk eru í aðalhlutverki.





