Handbolti

Porto lagði Val í Portúgal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorsteinn Leó Gunnarsson í hrömmum Alexanders Peterssonar.
Þorsteinn Leó Gunnarsson í hrömmum Alexanders Peterssonar. vísir/Anton Brink

Valsmenn máttu þola átta marka tap gegn Porto ytra í Evrópudeild karla í handbolta, lokatölur 37-29.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu í liði Porto sem átti í talsverðum vandræðum með Valsara framan af leik. Til að mynda voru gestirnir frá Hlíðarenda tveimur mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 17-19.

Sóknarleikur Vals var hins vegar hvorki fugl né fiskur í síðari hálfleik og gekk Porto á lagið. Miguel Oliveira var þeirra besti maður með fimm mörk og jafn margar stoðsendingar. 

Í liði Vals var Úlfar Páll Monsi markahæstur með sex mörk og eina stoðsendingu. Agnar Smári Jónsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar.

Í hinum leik riðilsins tapaði Íslendingalið Melsungen með tveggja marka mun gegn Vardar á útivelli, lokatölur 32-30. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk á meðan Elvar Örn Jónsson skoraði eitt og lagði upp annað.

Melsungen vinnur F-riðilinn með 10 stig, Porto endar í 2. sæit með sjö stig, Vardar þar á eftir með þrjú og Valur á botninum með tvö stig.

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði þrjú mörk þegar Bjerringbro-Silkeborg gerði jafntefli við Górnik Zabrze frá Póllandi í B-riðli, lokatölur 25-25. Guðmundur Bragi og félagar enda því riðlakeppnina í 3. sæti með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×