Handbolti

Haukar dæmdir úr bikarnum og ÍBV fer á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson og hans menn hjá Haukum unnu stórsigur gegn ÍBV en nú hafa þeir verið dæmdir út úr bikarkeppninni.
Ásgeir Örn Hallgrímsson og hans menn hjá Haukum unnu stórsigur gegn ÍBV en nú hafa þeir verið dæmdir út úr bikarkeppninni. vísir/anton

ÍBV hefur verið dæmdur 10-0 sigur í leiknum gegn Haukum fyrir rúmri viku, í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta.

ÍBV verður því í skálinni í hádeginu þegar dregið verður í 8-liða úrslit keppninnar en þó ber að hafa í huga að Haukar hafa nú þriggja daga frest til að áfrýja dómi Dómstóls HSÍ. Samkvæmt upplýsingum Vísis munu þeir áfrýja dómnum.

Haukar unnu leikinn 37-29 en Eyjamenn kröfðust 10-0 sigurs vegna brots Hauka á nýrri reglu, sem fast hefur verið fylgt eftir, um að ekki megi breyta leikskýrslu innan við 60 mínútum fyrir leik.

Fulltrúar beggja liða mættu á svokallaðan „tæknifund“ með eftirlitsmanni leiksins, sem Haukar segja að hafi hafist seinna en ella vegna þess að eftirlitsmaður hafi mætt seint auk þess sem fulltrúi ÍBV hafi vikið af fundinum um tíma, áður en eftirlitsmaður mætti.

Allir voru þó mættir rétt rúmum klukkutíma fyrir leik og voru leikskýrslur slegnar tímanlega inn í „HB ritara“, tölvukerfið sem notað er til að fylla út skýrslur.

Illa gekk hins vegar að prenta út skýrslu til yfirferðar. Þegar það hafðist var minna en klukkutími til leiks. Fulltrúi Hauka tók þá eftir því að nafn Helga Marinós Kristóferssonar var á skýrslunni en þar átti Andri Fannar Elísson að vera í hans stað.

Hann breytti því skýrslunni en eftirlitsmaður HSÍ sagðist þá þurfa að geta þess í skýrslu um leikinn.

Nú er niðurstaðan sú að ÍBV hefur verið dæmdur sigur en eins og fyrr segir ætla Haukar að áfrýja dómnum.

Áætlað er að næsta umferð í bikarnum verði spiluð 17. og 18. desember. Dregið verður í hádeginu, í 8-liða úrslit.

Greinin verður uppfærð...




Fleiri fréttir

Sjá meira


×