Innlent

Á­kærður fyrir morð og tvær til­raunir til manndráps

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Frá vettvangi á Skúlagötu á Menningarnótt.
Frá vettvangi á Skúlagötu á Menningarnótt. vísir

Sextán ára drengur sem er grunaður um að hafa stungið sautján ára stúlku til bana á Menningarnótt hefur verið ákærður fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps, fyrir að hafa stungið tvö önnur ungmenni í sömu árás.  

Rúv greindi fyrst frá. Þetta kemur fram í ákæru héraðssaksóknara en málið var þingfest í morgun. 

Fimm ungmenni voru í bifreið í miðbæ Reykjavíkur þann 24. ágúst laust fyrir miðnætti á Menningarnótt þegar drengurinn réðst á þau. Drengurinn braut rúðu bílsins og stakk ítrekað með hníf í pilt sem sat í bílnum og stakk hann bæði í öxl og brjóstkassa. Flúðu þá ungmennin bifreiðina en ein stúlka varð eftir í honum. 

Réðst þá drengurinn á hana og stakk með hnífnum í öxl, handlegg og hendi. Sextán ára drengurinn er ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps fyrir þessar árásir. 

Að þessu loknu réðst drengurinn á Bryndísi Klöru Birgisdóttur, sautján ára, og stakk hana í gegnum hjartað. Hún lést nokkrum dögum síðar af sárum sínum á Landspítalanum. Drengurinn er ákærður fyrir morð vegna þessarar árásar. 

Í ákæru er þess krafist að drengurinn verði dæmdur til refsingar fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps. Foreldrar Bryndísar krefjast hvort um sig sautján milljóna króna í miskabætur en einnig er krafist átta milljóna í miskabætur fyrir hönd stúlkunnar og drengsins sem voru stungin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×