Holland vann Úkraínu 43-23. Hollendingar luku því keppni í riðli Íslands með fullt hús stiga, eða sex stig, en Úkraína endaði neðst án stiga. Ísland og Þýskaland mætast klukkan 19.30 í hreinum úrslitaleik um 2. sæti riðilsins, en Þýskalandi dugar þar jafntefli vegna betri markatölu.
Ljóst er að Holland tekur með sér einn sigur í milliriðil því liðið vann bæði Þýskaland og Ísland, og því skiptir ekki máli hvort liðanna fylgir Hollandi áfram.
Nýliðar Færeyja geta fagnað því að hafa náð í stig á sínu fyrsta stórmóti en liðið stimplaði sig hins vegar út í kvöld með 33-24 tapi gegn Danmörku.
Danir enduðu á toppi D-riðils með fullt hús stiga en Sviss og Króatía mætast í kvöld í leik um 2. sæti riðilsins, þar sem Sviss dugar jafntefli til að fylgja Dönum áfram.
Mikil spenna í B-riðli
Mesta spennan er hins vegar í B-riðli þar sem Rúmenía vann endurkomusigur gegn Serbíu, 27-25, og á nú góða möguleika á að komast áfram í milliriðla.
Serbar enduðu án stiga á botni riðilsins en Rúmenía er með 4 stig. Svartfjallaland er líka með 4 stig og Tékkland 2, svo að ef að Tékkar vinna Svartfellinga í kvöld enda þrjú lið jöfn með 4 stig.
Innbyrðis viðureignir þeirra hafa verið þannig að Rúmenar þurfa nú að treysta á sigur Svartfjallalands, jafntefli eða þá að minnsta kosti fjögurra marka sigur Tékklands.