Brosið fer ekki af Hvergerðingum þessa dagana, ekki síst þeirra sem vinna í stjórnsýslunni því það átti engin von á svona myndarlegum styrk frá Evrópusambandinu til byggingar nýju skolphreinistöðvarinnar og um leið að þróa heildstæðar úrgangslausnir og sýna framfarir í meðhöndlun á úrgangi. Einnig mun Hveragerðisbær sýna fram á nýtt eftirlit með seyru og örplasti en það hefur ekki verið gert áður hér á landi.
Pétur G. Markan er bæjarstjóri í Hveragerði.
„Eitt af okkar stóru verkefnum undanfarið hefur verið að skipuleggja og fara svo í kjölfarið í framkvæmdir á nýrri skolphreinsistöð, sem verður þá viðbót við skolphreinsistöðina, sem er í dag, sem er til fyrirmyndar á landsvísu, þriggja þrepa skolphreinsistöð, sem hefur þjónað vel en er komin tími á. Nú þurfum við að bæta við hana og þessi styrkur mun nýtast geysilega vel í þá uppbyggingu og það verkefni,” segir Pétur.
Pétur segir að nýja skolphreinsistöðin verði á heimsmælikvarða því hún verði svo flott og fullkominn.
„Svo er það bara þannig að það hlýtur að vera hluti af sjálfsmynd allra bæjarfélaga að vera með skólphreinsimálin sín í lagi og hér hafa þau verið í lagi og ég held að það mættu margir taka okkur til fyrirmyndar í þessu,” segir Pétur.

En dugar styrkurinn frá Evrópusambandinu fyrir nýju skolphreinsistöðinni eða hvað ?
„Nei, þetta dugar nú ekki til. Hlutur bæjarins verður mjög myndarlegur á endanum. Við höfum oft verið að horfa einhvers staðar í kringum milljarð í svona lokakostnað við stöðina. Þetta eru dýrar stöðvar, þetta er dýr innviðauppbygging,” segir Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.
