Pelicot var í gær sakfelldur í öllum ákæruliðum fyrir að nauðga eiginkonu sinni, Gisele, í mörg ár og byrla henni ólyfjan svo aðrir menn gætu nauðgað henni. Fimmtíu aðrir karlmenn voru ákærðir í málinu og voru þeir allir sakfelldir fyrir verknaðinn. Í einu tilfelli var einn sýknaður af ákæru um nauðgun en sakfelldur fyrir annarskonar kynferðisbrot.
Fjallað er um Pelicot á vef BBC í dag og birtar myndir af honum. Þar segir að miðað við ásakanirnar gegn honum hefði mátt búast við einhverjum vansælum og brjóstumkennanlegum í dómsal. Það hafi hins vegar alls ekki verið raunin. Pelicot hafi mætt í dómsal hrokafullur og jafnvel eins og honum virtist leiðast.
„Ég er nauðgari, eins og aðrir í þessu herbergi. Þeir vissu allt, sagði Pelicot á einum tímapunkti.“
„Það var eitthvað sem passaði ekki. Ég hef aldrei skoðað áður svona óvenjulegt mál,“ er haft eftir Layet en það sagði hann um sín fyrstu kynni af Pelicot árið 2020 þegar hann var fyrst handtekinn fyrir að mynda undir pils kvenna í matvöruverslun. Layet var kallaður inn til að meta Pelicot og segir að hann hafi strax tekið eftir því hversu auðveldlega hann vísaði ásökunum á bug.
Layet segir að hann hafi strax þá komið auga á ósamræmi í hegðun hans og hafi upplifað það sterkt að hann væri að fela eitthvað alvarlega. Eftir þessi kynni sagði hann lögreglunni að þarna væri maður á ferð sem þörf væri á að fylgjast betur með.
Engin merki um alvarlegan geðsjúkdóm
Í umfjöllun BBC segir að tveimur árum seinna, eftir tvö löng viðtöl við Pelicot og um tuttugu aðra sakborninga, hafi Layet getað fyrir dómi lagt fram ítarlegri greiningu á honum. Þar ítrekaði hann að Pelicot sýndi engin merki um alvarlegan geðsjúkdóm. Það væri ekki hægt að afgreiða hann sem bara skrímsli eða að hann væri svo geðveikur að hann gæti ekki aðskilið tilbúning frá raunveruleikanum. Á sama tíma væri einhvers konar gjá eða sprunga í persónuleikanum.
„Nánast eins og harður diskur,“ stakk Layet upp á og sagði að þannig liti út fyrir að Pelicot hefði geymt upplýsingarnar um alvarlega glæpi sína á hörðu drifi eða minnislykli. Í umfjöllun BBC segir að hann hafi í viðtali sagt að það hafi virst sem hugur hans hefði verið klofinn í tvennt og það læki ekkert á milli.
„Klofinn persónuleiki hans er mjög skilvirkur og traustur. Við erum annað hvort með „venjulega herra Pelicot“ eða hinn herra Pelicot, á nóttunni í svefnherberginu,“ er haft eftir Layet.
Sjá einnig: Bað eiginkonu sína og börn afsökunar
Í dómsal var hann beðinn að lýsa „hinum herra Pelicot“. Hann sagðist hafa komið auga á veruleg tilfinningaleg og kynferðisleg frávik í persónuleika hans.
Í umfjöllun BBC segir að lögmaður Pelicot, Beatrice Zavarro, hafi tekið þessum skýringum Layet á klofnum persónuleika hans opnum örmum í lokaræðu sinn í dómsal. Að maðurinn sem Gisele hefði orðið ástfangin af og gifst 1973 væri ekki sami maðurinn og beitti hana ofbeldi.
Tvær hliðar en eitt stjórnkerfi
BBC segir að Layet hafi samt sem áður ekki, með útskýringum sínum, meint það. Heldur væru tvær hliðar á honum en aðeins eitt stjórnkerfi. Hann væri með andfélagslega persónuleikaröskun. Hann væri þannig alltaf sakhæfur en sýndi klárlega merki, vegna röskunarinnar, á skorti á samúð í garð annarra. Þessi frávik í persónuleika hans hafi verið ýkt vegna kynferðisofbeldisins sem hann var beittur sem barn.
Í umfjöllun BBC segir að það veki svo upp spurningar varðandi það hvort hann hafi aðeins byrjað að áreita og beita konur ofbeldi fyrir tíu árum eða hvort sú hegðun hafi byrjað fyrr. Í umfjölluninni kemur fram að enn eru til rannsóknar tvær nauðganir og manndráp sem Pélicot er grunaður um á 10. áratugnum.