Erlent

Fimm látnir og tvö hundruð særðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónn stendur þar sem maðurinn ók í gegnum þvögu fólks á miklum hraða.
Lögregluþjónn stendur þar sem maðurinn ók í gegnum þvögu fólks á miklum hraða. AP/Ebrahim Noroozi

Yfirvöld í Þýskalandi hafa uppfært tölur yfir fjölda látinna og særðra eftir að maður ók bíl á miklum hraða inn í þvögu fólks á jólamarkaði í Magdeburg í gærkvöldi. Að minnsta kosti fimm eru látnir og rúmlega tvö hundruð eru særðir.

Í frétt ARD í Þýskalandi segir að 41 sé alvarlega særður eftir árásina, sem framin var af fimmtugum geðlækni frá Sádi Arabíu.

Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en svo virðist sem árásarmaðurinn, sem sagður er heita Taleb Abdul Jawad, hafi lýst sér sem vinstri sinnuðum manni en hann aðhylltist öfgahægriflokknum AfD og fylgdi hægri sinnuðum aðilum. Þá hefur hann haldið því fram á samfélagsmiðlum að Þjóðverjar séu að íslamvæða Evrópu.

Sjá einnig: Fimmtugur geðlæknir ók bílnum

Árásarmaðurinn er sagður hafa verið einn að verki.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, er mættur til Magdeburg þar sem hann skoðaði vettvang árásarinnar í morgun með öðrum embættismönnum.

Þá segir Spiegel að umfangsmikil leit standi nú yfir á heimili hans, þar sem fjölmargir lögreglujónar eru staddir.

Uppfært: Fjöldi látinna hefur verið hækkaður úr fjórum í fimm.


Tengdar fréttir

Heyrðu í þyrlum og öskrum út um gluggann

Ungt íslenskt par sem býr örskammt frá jólamarkaðnum í Magdeburg í Þýskalandi segist vera illa brugðið eftir að maður ók bifreið sinni á tugi manna fyrr í kvöld. Það hafi ekki hvarflað að þeim að slíkt gæti gerst í Magdeburg. Búið sé að eyðileggja hátíðirnar í borginni.

Bifreið ekið á hóp fólks á jólamarkaði

Bifreið var ekið á hóp fólks sem var samankomið á jólamarkaði í borginni Magdeburg í Þýskalandi klukkan 19.04 í kvöld. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi. Að minnsta kosti tveir eru látnir og tugir annarra slasaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×