Hann gat ekki rætt við fréttastofu í löngu máli þar sem hann var staddur í vinnunni og var önnum kafinn við að hlúa að fólki. Eins og greint hefur verið frá eru minnst fimm látnir og 200 slasaðir eftir atvikið í gær sem stjórnvöld í Þýskalandi telja að hafi verið árás.
„Það er mjög erfitt fyrir alla að ræða þessi mál. Ég var ekki í bænum og get ekki mikið sagt um það. Nóttin var hræðileg,“ segir Henning.
Hann tekur fram að engum hafi dottið í hug að slíkt gæti gerst í Magdeburg. Fólk í borginni sé í áfalli.
„Jólamarkaðurinn hér er vinsæll og mjög fallegur en það verður erfitt að ganga um hann í framtíðinni fyrir marga. Hér ríkir mikil sorg. Í allri borginni er angist, sorg, reiði, hatur. Enginn veit hvernig eða hvaða skaði myndast hér í þjóðfélaginu, í borginni.“