Handbolti

Dana á­berandi í síðasta leik ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dana Björg Guðmundsdóttir var að venju atkvæðamikil í liði Volda.
Dana Björg Guðmundsdóttir var að venju atkvæðamikil í liði Volda. @Volda Handball

Dana Björg Guðmundsdóttir og félagar hennar í Volda unnu góðan útisigur í dag í norsku b-deildinni en þetta var síðasti leikur liðsins á árinu 2024.

Volda vann leikinn með fjórum mörkum, 30-26, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 14-9.

Sigurinn skilar Volda upp í 21 stig en liðið er aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Fjellhammer.

Íslenski landsliðshornamaðurinn var með sjö mörk í leiknum en hún nýtti sjö af níu skotum sínum. Dana var næstmarkahæst í sinu liði en Mie Stensrud skoraði níu mörk.

Dana skoraði fjögur markanna úr hraðaupphlaupum og var með eina stoðsendingu og eitt fiskað víti.

Volda spilaði frábærlega í fyrri hálfleiknum og kom með fimm marka forskot inn í seinni hálfleikinn.

Heimakonur náðu að minnka muninn niður í eitt mark en Dana og Volda stelpunum tókst að halda þetta út og landa mikilvægum sigri.

Dana kláraði leikinn með því að skora lokamarkið þremur sekúndum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×