Samkvæmt kasökskum stjórnvöldum er unnið að því að slökkva elda sem kviknað hafa í flakinu. Myndbönd hafa þegar farið í dreifingu sem sýna slysið og eftirmála þess.
Rússneskumælandi miðlar greina frá því að flugið hafi verið á vegum Azerbaijan Airlines og hafi verið á leið frá Bakú til borgarinnar Grosní í Téténíu en hafi þurft að breyta leið sinni vegna þoku í Grosní.
Azerbaijan Airlines hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla en samkvæmt kasökskum staðarmiðlum voru 105 farþegar og fimm áhafnarmeðlimir um borð þegar vélin hrapaði.