Enduðu árið með stæl

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið sjóðandi heitur þetta tímabilið.
Mohamed Salah hefur verið sjóðandi heitur þetta tímabilið. Liverpool FC/Liverpool FC via Getty Images

Liverpool vann afar öruggan 0-5 sigur er liðið heimsótti West Ham í síðasta leik liðanna á árinu 2024.

Liðsmenn Liverpool hafa verið í miklu stuði þetta tímabilið og virðist fátt geta komið í veg fyrir það að liðið tryggi sér Englandsmeistaratitilinn í vor.

Liðið lék á als oddi í Lundúnum í dag og Luis Diaz kom Liverpool yfir eftir hálftíma leik áður en Cody Gakpo tvöfaldaði forystuna tíu mínútum síðar eftir undirbúning frá Mohamed Salah.

Salah var svo sjálfur á ferðinni stuttu fyrir hálfleikshlé þegar hann skoraði þriðja mark Liverpool og staðan í hálfleik því 0-3.

Trent Alexander-Arnold bætti fjórða markinu við á 54. mínútu með skoti fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmanni West Ham og það var svo Diogo Jota sem innsiglaði 0-5 sigur Liverpool eftir stoðsendingu frá sjóðheitum Mohamed Salah.

Liverpool endar því árið með stæl og trónir á toppi deildarinnar með 45 stig eftir 18 leiki, átta stigum meira en Nottingham Forest sem situr í öðru sæti. West Ham situr hins vegar í 13. sæti með 23 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira