Fyrr í dag unnu Haukar þriggja marka sigur gegn Stjörnunni, 32-29, í fyrsta leik deildarinnar eftir hléið langa vegna EM og jóla.
Haukar sitja í 3. sæti með 14 stig en Fram er núna tveimur stigum ofar eftir að hafa skellt Gróttu í Úlfarsárdal í dag, þar sem staðan var 14-10 í hálfleik.
Þórey Rósa Stefánsdóttir sagðist eftir EM í desember líklega hafa spilað sinn síðasta landsleik en hún er hvergi nærri hætt að skora mörk, og var markahæst hjá Fram í dag með sjö mörk.
Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín kom næst hjá Fram með fimm mörk en Ída Margrét Stefánsdóttir var markahæst hjá Gróttu með átta mörk.
Engin spenna var í leiknum á Selfossi þar sem meistarar Vals sýndu enga miskunn og voru sex mörkum yfir í hálfleik, 18-12, og unnu að lokum fjórtán marka sigur, 34-20.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, sem dró sig út úr landsliðinu á síðasta ári og hefur því verið í hléi síðan í nóvember, var markahæst hjá Val með sjö mörk en landsliðskonan Elísa Elíasdóttir og Sigríður Hauksdóttir skoruðu sex mörk hvor. Hjá Selfossi var landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir markahæst með sex mörk.
Valskonur eru með fjögurra stiga forskot á Fram á toppi Olís-deildarinnar, með 20 stig eða fullt hús stiga eins og fyrr segir.