Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í Silfrinu á Rúv í gær að eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur á árinu. Heimir Már Pétursson ræddi við hann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Við erum að vinna frumvarp þar sem því verður nákvæmlega lýst hvernig söluferlið getur orðið. Það er mikilvægt að þetta ferli sé opið og hafið yfir allan vafa, að það sé traust á því ferli. Það mál er í vinnslu.“
Almenningur fái örugglega að taka þátt
Sala á hlut ríkisins hófst árið 2021 með almennu útboði á 35 prósenta hlut ríkisins í bankanum og skráningu bankans í Kauphöllina. Um 55 milljarðar króna fengust fyrir hlutinn og hluthafar urðu 24 þúsund talsins. Langflestir nokkurs félags í Kauphöllinni.
Annað útboð fór fram árið 2022 þegar 22,5 prósenta hlutur í bankanum var seldur. Þá fengu aðeins hæfir fjárfestar að taka þátt. Tæplega 53 milljarðar króna fengust fyrir hlutinn en söluferlið var harðlega gagnrýnt. Ekki síst vegna þess hverjir fengu að taka þátt í útboðinu, meðal annars faðir þáverandi fjármálaráðherra.
Daði Már segir að fyrirkomulag eftirstandandi hlutar ríkisins, 42,5 prósent, liggi ekki fyrir að svo stöddu.
„Það er verið að skoða báða möguleika en það verður örugglega eitthvað boðið til almennings. Svo á eftir að taka ákvörðun um það hvernig nákvæmlega útfærslan verður.“
Þá segir hann ekki hafa verið ákveðið hvort hluturinn verði seldur allur á einu bretti eða í bútum. Fyrri ríkisstjórn hafði ætlað sér að selja hlutinn í tveimur bútum.
Markaðsvirði hlutarins rúmir hundrað milljarðar
Daði Már segir að þegar sé gert ráð fyrir sölu Íslandsbanka í fyrirliggjandi fjárhagsáætlunum ríkisins. Söluandvirðið verði bæði nýtt til þess að ráðast í ný verkefni og greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Markaðsvirði Íslandsbanka þegar þessi frétt er skrifuð er 238, 3 milljarðar króna og virði hlutar ríkisins er 101,3 milljarðar króna. Óvarlegt væri að áætla að svo mikið fáist fyrir hlutinn enda er verð hlutabréfa í útboðum ávallt lægra en á almennum markaði.
Til dæmis fengu hæfu fjárfestarnir sem keyptu í Íslandsbanka árið 2022 um fjögurra prósenta „afslátt“. Það er að segja, útboðsgengið var fjórum prósentum lægra en dagslokagengið daginn fyrir útboð.
Daði Már bendir á að erfitt er að spá fyrir um hversu mikið mun fást fyrir hlut ríksins, enda sveiflist markaðsvirði fjármálastofnana nokkuð mikið. Virðið verði að koma í ljós þegar nær dregur.