Líkt og Vísir greindi frá í morgun hafa níu kjörnir alþingismenn verið skipaðir í undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga og hefur nefndin verið boðuð til fyrsta fundar síðdegis.
„Þessi undirbúningsnefnd fær í hendurnar í dag umsögn frá landskjörstjórn um kosningakærur og annað er varðar alþingiskosningarnar 30. nóvember. Nefndin hefur býsna víðtæka heimild samkvæmt þingskapalögum til þess að rannsaka þessar niðurstöður og mun væntanlega gera það á næstu dögum og vikum,“ segir Þórunn sem útnefnd hefur verið sem forseti Alþingis.
Hún segir erfitt að segja til um það á þessari stundu hve langan tíma nefndin muni taka í vinnu sína. „Við sjáum það betur þegar hún hefur hafið störf í dag og umsögnin er komin frá landskjörstjórn. Þessi nefnd þarf auðvitað að vanda sig en það er gott ef hún getur bæði unnið hratt og vandað sig en ég á von á því að hún verði að störfum fram undir mánaðamót,“ segir Þórunn.
Þykir ósennilegt að kosningar verði ógiltar
Á þessu stigi segir Þórunn mjög erfitt að segja nokkuð til um hugsanlegar niðurstöður nefndarinnar í ljósi þeirra kæra og álitaefna sem fram hafa komið.
„Það er engin leið að segja til um það í dag. En mér finnst hins vegar miðað við það sem ég hef heyrt og lesið í fréttum nú frekar ólíklegt að þessar kosningar verði ógiltar. En hins vegar hefur undirbúningsnefndin nokkuð víðtækar heimildir lögum samkvæmt og getur beðið um bæði gögn, gert sína eigin rannsókn, beðið um endurtalningu og þess háttar,“ segir Þórunn.
Alþingi muni koma saman eins fljótt og hægt er eftir að nefndin hefur lokið sínum störfum. Í síðasta lagi fyrstu vikuna í febrúar. „Það er gott að hafa í huga að þessar kosningar fóru fram á mjög óvenjulegum tíma í lok nóvember. Það er nú vanalega þannig þegar kosið er á vorin þá líður svolítill tími fram fram á haustið þar til að allt byrjar í þingstörfunum en við munum hefja störf eigi síðar en í byrjun febrúar,“ segir Þórunn en lögum samkvæmt skal Alþingi koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir kjördag.
„Um leið og þessi nefnd byrjar að starfa og hún fær alveg frið frá okkur hinum til sinna starfa.“
Fréttin hefur verið uppfærð.