Handbolti

Slóvenía ekki í miklum vand­ræðum með Argentínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blaz Janc skoraði tvö mörk gegn Argentínu.
Blaz Janc skoraði tvö mörk gegn Argentínu. getty/Igor Kralj

Fyrsta leik dagsins í milliriðli 4, sem Ísland er í, á HM í handbolta karla er lokið. Slóvenía vann þá öruggan sigur á Argentínu, 34-23.

Íslendingar sigruðu Slóvena, 18-23, í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudaginn. Slóvenska liðið fór með tvö stig inn í milliriðla en það argentínska var án stiga.

Argentínumenn áttu ekki mikið í Slóvena í leiknum í Zagreb í dag. Staðan í hálfleik var 15-8 og þegar yfir lauk munaði ellefu mörkum á liðunum, 34-23.

Tadej Kljun skoraði fimm mörk fyrir Slóveníu og Kristjan Horzen, Miha Kavcic og Aleks Vlah voru með fjögur mörk hver. Klemin Ferlin var valinn maður leiksins en hann varði sjö af þeim fimmtán skotum sem hann fékk á sig.

Juan Gull og Ramiro Martínez skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Argentínu sem mætir Íslandi á sunnudaginn.

Eftir að hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í H-riðli heimsmeistaramótsins vann Barein Kúbu, 26-39, í fyrsta leik sínum í Forsetabikarnum.

Þau átta lið sem komust ekki upp úr riðlakeppninni taka þátt í Forsetabikarnum. Barein, sem Aron Kristjánsson stýrir, er í riðli með Kúbu, Bandaríkjunum og Japan.

Íslendingar unnu Kúbverja, 40-19, og Bareinar áttu heldur ekki í miklum vandræðum með að sigra þá. Mujtaba Alzaimoor skoraði sex mörk fyrir Barein og Qasim Qambar fimm. Markverðir Barein vörðu samtals nítján skot.

Í milliriðli 3 vann Brasilía Síle, 28-24. Brasilíumenn eru með fjögur stig en Sílemenn ekkert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×