Handbolti

„Kannski er ég orðinn frekur“

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson fylgist einbeittur með.
Snorri Steinn Guðjónsson fylgist einbeittur með. VÍSIR/VILHELM

„Þetta var frábær sigur, frábær leikur hjá mínu liði. Við náðum að fylgja eftir frábærri frammistöðu og það er mikilvægt að gera hlutina ekki bara einu sinni heldur aftur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari strax eftir sigurinn gegn Egyptum í kvöld, á HM í handbolta.

Ísland er enn með fullt hús stiga á mótinu og komið í afar góða stöðu upp á að komast í 8-liða úrslit mótsins, en þangað fara tvö efstu lið milliriðilsins. Snorri hefði þó alveg þegið enn stærri sigur, með það í huga að innbyrðis markatala gæti ráðið úrslitum ef Ísland tapar gegn Króatíu á föstudag.

Íslenska liðið passaði að hleypa Egyptalandi aldrei of nálægt sér í kvöld, og hélt „þægilegri“ 3-5 marka forystu mestan hluta leiksins:

„Mér fannst hún ekki vera þægileg. Ég hefði viljað vinna stærra, með 5-6 mörkum. Það getur orðið mikilvægt. En kannski er ég orðinn frekur. Ég er fyrst og fremst gríðarlega ánægður með hugarfarið og einbeitinguna í strákunum. Að fara ekki of hátt eftir góðan leik, ná sér niður og gíra sig svona vel inn í þetta. Frábær frammistaða,“ sagði Snorri.

Eru það þroskamerki á liðinu að hleypa leiknum aldrei í meiri spennu?

„Gæðamerki. Við erum að spila á móti góðu liði sem við berum mikla virðingu fyrir. Það eru alls konar þroskamerki og eitthvað sem við gerðum betur en í síðasta leik. En eflaust eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Snorri. En er eitthvað sem angrar hann eftir svona leik?

„Að hafa ekki unnið stærra,“ sagði Snorri sem er ekki að fara fram úr sjálfum sér frekar en fyrri daginn:

„Ég held við þurfum fleiri stig og því fleiri sem við fáum, og því fyrr, því betra. Það er ekkert í hendi og við eigum gríðarlega erfiðan leik fram undan við Króata á heimavelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×