Handbolti

„Fór langt á harða gæjanum og hrokanum“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson er á góðum stað og er að spila frábæran handbolta á HM.
Aron Pálmarsson er á góðum stað og er að spila frábæran handbolta á HM. vísir/vilhelm

Fátt hefur glatt meira á heimsmeistaramótinu í Zagreb en frammistaða Arons Pálmarssonar. Hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga í landsliðsbúningnum og leikið við hvurn sinn fingur.

„Munurinn á mér núna og frá í fyrra er yfirvegun fyrir öllu. Leiknum og aðstæðum. Kannski vottur af auðmýkt. Maður fór langt á harða gæjanum og hrokanum sem þarf auðvitað. Svo er ég búinn að bæta við þessari auðmýkt,“ segir Aron einlægur en hann segir að stór hluti af þessum þroska sé að hafa komið heim í eitt ár.

„Það er stór partur af því. Það breytti sýn minni á leikinn og öllu í kringum það. Ég er glaður og þakklátur. Ég er alltaf að hækka töluna mína með hausinn. Þetta er bara 90 prósent hausinn. Ég er frjáls þar.“

Aron sagði í viðtali fyrir um ári síðan að Snorri Steinn landsliðsþjálfari hefði náð að kveikja á sér. Hann er enn á því.

Snorri með fína sálfræði á mig

„Ég hef ekki pælt nógu mikið í því. Hann hefur ýtt á einhverja punkta og er með ágætis sálfræði á mig.“

Liðið hefur loksins smollið saman á þessu móti. Hver er ástæðan fyrir því?

„Er ekki kominn tími til? Við erum búnir að vera saman í góðan tíma núna. Ætli það sé ekki trúin á þetta. Hún hefur aukist með hverju árinu. Þegar þetta virkar þá kemur meiri trú.“

Í kvöld verður Ísland á gríðarlega erfiðum útivelli þar sem um 15 þúsund króatískir áhorfendur öskra á þá.

„Ég elska það. Það er geggjað. Ég hef oft talað um að sé skemmtilegra að spila á erfiðum útivöllum. Við vitum samt að Íslendingar eru háværir í stúkunni.“

Leikur Íslands og Króatíu hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textaýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×