Handbolti

Eina tapið svíður enn: „Við vorum „outcoachaðir“ á öllum sviðum“

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson ræðir við fjölskylduna eftir leikinn við Argentínu í dag. Hann ætlar að njóta kvöldsins með sínu fólki, sama hvernig fer hjá Króatíu og Slóveníu.
Gísli Þorgeir Kristjánsson ræðir við fjölskylduna eftir leikinn við Argentínu í dag. Hann ætlar að njóta kvöldsins með sínu fólki, sama hvernig fer hjá Króatíu og Slóveníu. vísir/Vilhelm

„Við þurfum bara að bíða og ef eitthvað skyldi gerast þá látum við það koma okkur skemmtilega á óvart. Við ætlum ekki að láta þetta skemma kvöldið fyrir okkur. Mögulega er þetta síðasta kvöldið okkar saman og við ætlum bara að njóta þess,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, eftir mögulega síðasta leik Íslands á HM.

Gísli og félagar áttu auðvitað í engum vandræðum með að vinna Argentínu í dag en þurfa nú að bíða fram á kvöld eftir því að vita hvort þeir fái hjálp frá Grænhöfðaeyjum eða Slóveníu. Líklegast er þó að eina tapið á HM, gegn Króatíu á föstudaginn, leiði til þess að Ísland falli úr keppni og það tap situr enn í Gísla.

„Auðvitað er þetta mjög skrýtin tilfinning. Við töpuðum á móti heimaþjóðinni og það vara bara lélegur leikur,“ sagði Gísli og notaði stór orð um leikinn við Króatíu:

„Við vorum „outcoachaðir“ á öllum sviðum. Þeir komu okkur á óvart með þessari 5-1 vörn og við áttum að vera með miklu betri svör í þeim leik. Það er alveg hægt að segja fullt um að þeir hafi verið með einhverja geðveiki og slíkt, en við þurfum líka að horfa á okkur sjálfa. Við erum helvíti góðir handboltalega og skulum taka þá einu sinni á gæðum, ekki bara á einhverri geðveiki. Mér fannst við detta á sama „level“ og á móti Ungverjum í fyrra. Leikplanið fór út um gluggann eftir tvær mínútur. Við þurfum að skoða þetta. Maður lifir og lærir í þessum bransa,“ sagði Gísli en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Gísli eftir sigurinn gegn Argentínu

„Við erum bara búnir að tapa einum leik á þessu móti. Það er gríðarlega svekkjandi ef svo skyldi fara að við dettum út, með átta stig í milliriðli. Ég veit ekki hversu oft það hefur gerst en svona er staðan sem við komum okkur í með þessum lélega leik við Króatíu,“ sagði Gísli.

En hefur hann trú á því að Slóvenar hjálpi Íslendingum í kvöld?

„Slóvenar eru með þrusulið, og Króatar líka. Maður verður með símann í gangi á meðan við erum að borða. Maður mun ekkert skipuleggja kvöldið í kringum þennan leik. Ég mun reyna að njóta með fjölskyldunni. Ef við föllum út er ég farinn til Magdeburgar á morgun, svo ég ætla að reyna að njóta og láta það koma skemmtilega á óvart ef eitthvað gerist.“


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Ísland - Argentína 30-21 | Strákarnir okkar lifa í voninni

Strákarnir okkar gerðu sitt í dag með því að vinna Argentínu í lokaleik sínum í milliriðlakeppni HM í handbolta. Nú þurfa þeir að treysta á hjálp frá Grænhöfðaeyjum eða Slóveníu til að komast áfram í 8-liða úrslit, en það er ljóst að þeir enda í versta falli í 9. sæti mótsins.

Snorri ekki viss um að hann horfi í kvöld

„Einhvers staðar hef ég smá trú, en hafandi spilað við Króatana á þeirra heimavelli þá held ég að líkurnar séu ekki okkur í hag,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari, nú þegar biðin er hafin eftir því að vita hver örlög Íslands verða á HM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×