Handbolti

Valskonur byrjuðu Eyjadagana sína á því að komast í bikarúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir bjó til fimmtán mörk fyrir Valsliðið í Eyjum í kvöld og fékk 9,27 í sóknareinkunn hjá HB Statz.
Elín Rósa Magnúsdóttir bjó til fimmtán mörk fyrir Valsliðið í Eyjum í kvöld og fékk 9,27 í sóknareinkunn hjá HB Statz. vísir/Anton

Kvennalið Vals er komið í undanúrslit Powerade bikarsins í handbolta og tekur því þátt í bikarúrslitavikunni sjöunda árið í röð.

Valur vann sannfærandi fjögurra marka sigur á ÍBV í kvöld, 24-20, í leik liðanna í átta liða úrslitum út í Vestmannaeyjum. Valur var sex mörkum yfir í hálfleik, 14-8.

Hafdís Renötudóttir var þegar komin með 11 varin skot og 58 prósent markvörslu í fyrri hálfleiknum. Hún endaði með 19 varin skot og 49 prósent markvörslu.

Valsliðið var 19-14 yfir um miðjan seinni hálfleik. Eyjakonur minnkuðu muninn niður í tvö mörk en nær komust þær ekki.

Elín Rósa Magnúsdóttir var markahæst í Valsliðinu með sex mörk og átti einnig níu stoðsendingar. Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu báðar fimm mörk.

Birna Berg Haraldsdóttir var áfram í aðalhlutverki hjá ÍBV en hún var með níu mörk og sex stoðsendingar í leiknum í kvöld.

Leikurinn átti að fara fram í gær og voru Valskonur komnar út í Eyjar þegar leiknum var frestað vegna veðurs. Valsliðið mun eyða nokkrum dögum í Eyjum því liðin mætast aftur í Eyjum í Olís deildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×