Innlent

Vísa kjara­deilu við Sorpu til sátta­semjara vegna um­boðs­leysis samninga­nefndar

Kjartan Kjartansson skrifar
Efling segir að samninganefnd Sorpu hafi reynst umboðslaus.
Efling segir að samninganefnd Sorpu hafi reynst umboðslaus. Vísir/Vilhelm

Stéttarfélögin Efling og Hlíf hafa vísað kjaradeildu sinni við Sorpu byggðasamlag til ríkissáttasemjara. Ástæðan er sögð sú að framkvæmdastjóri byggðasamlagsins hafi tekið fram fyrir hendurnar á samninganefnd sem ræddi við stéttarfélögin.

Sérkjarasamningur félaganna tveggja við Sorpu rann út í lok mars en hófust samningaviðræður um miðjan nóvember. Í tilkynningu frá Eflingu kemur fram að fulltrúar félaganna hafi talið góðan gang í viðræðunum þannig að jafnvel yrði mögulegt að skrifa undir samning fyrir jól. Þá hafi framkvæmdastjóri byggðasamlagsins gefið þau skilaboð að hann samþykkti ekki niðurstöður viðræðnanna. Sá hafi ekki tekið þátt í samningafundunum.

Það hafi komið samninganefndum Eflingar og Hlífar á óvart. Félögin telji það einsdæmi að samninganefnd viðsemjanda reynist ekki hafa umboð til þess að ljúka samningagerð. Því hafi félögin tekið þá ákvörðun að vísa deilunni til ríkissáttasemjara þar sem fundur verði boðaður fljótlega.

Sorpa er í sameiginlegri eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjóri hennar er Jón Viggó Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×